Með visnaða hönd úr kjörklefanum

Dagar sveitasælu að baki. Í fyrradag var ekki hægt að greina gilið í Sámsstaðamúlanum. Hvítur snjórinn huldi kletta og drög. Í gær var snjórinn horfinn. Snjólínan ofar gilinu. Hrafnarnir sáust ekki. Það er óvenjulegt. Smyrill sat nokkra stund á mæninum hjá nágranna.

Snjór var yfir öllu þegar við komum á staðinn. Allur snjór horfinn daginn eftir. Í morgun snjóþekja yfir. Hrafninn kom loksins. Flaug lágt. Hægt. Er hann einn? spurði Ásta. Það sýnist mér, svarði ég og fór út á pall og hrópaði fullum hálsi, Halló krummi kró kró. Hann settist á moldarbing skammt frá. Ekki lengi. Ég átti ekkert að gefa honum.

Bryndís, systir Ástu og bóndi í Kalmanstungu, leit við í kaffi og eplatertu og spjall. Það er svo ánægjulegt að sjá hvað það fer vel á með þeim systrum. Fáar konur hef ég heyrt segja af jafnmikilli sannfæringu og Bryndís hvað innilega hún elskar bílinn sinn. Þessi árin fer hún allra sinna ferða á eigin bíl.

Við lágum annars í bókum. Ásta gætti systur sinnar í bók eftir Jodi Picoult. Sveinn og Einar glímdu um Guð. Pexuðu. Arkitektinn fékk það hjá Kötu áður en hann náði markinu. Félagar okkar yfir helgina voru fyrrnefnd Jodi Picoult, Árni Bergmann, Guðmundur Andri og Sjón. Við lásum sitjandi, lásum liggjandi og jafnvel standandi

Veðurstofan spáði stormi allt að 23 metrum. Það var stafalogn. Tvær gráður plús í Reykjavík sagði útvarpið. Þær voru átta við Litlatré. Í kringum fréttatímana ræddum við pólitík og kreppu. Það var óviljandi. Höfðum heitið okkur því að vera stikkfrí í þeim efnum yfir helgina.

Hestar krafsa í jörð
Hestar krafsa í jörð

Af mannvonsku spurði ég Ástu hvort við ættum að kjósa VG í vor svo ósátt sem við erum með flokkinn okkar. Uss nei, sagði hún, það geri ég aldrei, og hún bætti við, en þú, gætir þú kosið þá? Ég veit það ekki, svaraði ég. Hugsaði mig um og sagði svo, ég óttast að höndin á mér myndi visna. Það væri leiðinlegt að koma út úr kjörklefanum með visnaða hönd.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.