Kommúnistinn og lambhúshettan

Það hefur legið fyrir megnið af ævi minni að ég hef ekki mikið vit á stjórnmálum. Þess vegna hef ég stutt frelsi og framtak einstaklingsins í gegnum tíðina. Fundið feikilega hamingju í því að fá að vinna og vinna mikið. Það þótti mér mikil sérréttindi. Að fá að vinna mikið. Til þess að verkamaður kæmist af varð hann að vinna mikið. Þannig hafa kaupin á eyrinni gerst á Íslandi.

Já, já, og næg atvinna þess vegna verið lykill að lífinu.Undanfarin ár hefur verið nóg um vinnu fyrir flesta. Karlar og konur hafa blessað ástandið og tekið því sem sjálfgefnu að alltaf yrði nóg af öllu. Peningarnir yxu á trjánum. Stjórnmálamenn voru látnir í friði um stjórnunina og margt fólk féll fyrir hégóma. Setti sig í skuldir. Keypti allt sem því datt í hug.

Fáir vöruðu sig á því að það voru maðkar í mysunni. Til varð stétt fjármálamanna sem sá sér leik á borði og plataði alla. Stjórnmálamenn léku á gítar á meðan þjóðaskútan brann. Allir þekkja afleiðingarnar. Tilveran er hrunin. Hún hrundi yfir stóran hluta þjóðarinnar. Karlar, konur og börn eru grafin í rústirnar. Þeim var sagt að bíða. Ráðamenn væru að spá í spilin sín.

Þetta fór í gegnum kollinn á mér í dag þegar ég fékk orðsendingu frá vini um að hann vildi gefa mér lambhúshettu. Ég væri orðinn svo mikill kommúnisti. Orðið kommúnisti var flokkað sem blótsyrði í fjölskyldunni í hálfa öld. Sé ég orðinn kommúnisti þá hefur flokkurinn minn gert mig að því. Ég set mig í hóp með þeim sem vilja taka gítarana af stjórnmálamönnunum.

Ég er ekki kommúnisti og ég þarf ekki lambhúshettu. Ég blogga undir nafni og mynd. Skoðanir mínar byggjast á samlíðan með fátæku fólki. Það er mitt kristilega viðhorf.

Eitt andsvar við „Kommúnistinn og lambhúshettan“

  1. Já Óli það er gott að hafa vinnu. Ég hef alltaf haft vinnu og oft unnið langar vinnuvikur. Þakklátur fyrir það á þessum tímum. Finn til með þeim sem ekki fá vinnu sem vilja vinna. En ég vorkenni ekki þeim sem missa vinnuna í efstu stöðum sem eru sjálfir búnir að skammta sér eftirlaun og starfslokasamninga.
    P.s takk fyrir kveðjuna (já ég er stundum boðinn í mat hér í hverfinu og hér er gott samfélag þó það sé ekki fjölmennt) Kærar kveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.