Fæðing frelsara – gleðileg jól

Ekki eru jólin öllu fólki hátíð. Enda líklegt að fólk hafi mismunandi skoðun á því hvað þurfi til svo að hátíð teljist. Þessi árin virðist sem færri leiti inn í huga sinn og hjarta að hátíð. Tímarnir hafa og mótast af mikilli veraldarhyggju. Flest gildi metin eftir markmiðum Mammons og sálmar tileinkaðir honum. Lítið hald virðist í þeirri trúarstefnu þessa dagana.

Stoltir menn hafa gjarnan, í kaldhæðnum tóni, talað niður til trúarinnar á Jesúm Krist. Kunnur fræðimaður, íslenskur, taldi það vísbendingu um vafasama tilveru Krists að menn héldu fæðingarhátíð hans í desember, sem vísindamenn þó væru sannfærðir um að væru alls ekki dagarnir sem hann fæddist á.

Hvað um það. Við Íslendingar höldum þjóðhátíð 17. júní ár hvert. Sá dagur er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri. Samt sem áður er það ekki fæðingardagurinn sem gerir Jón Sigurðsson að þjóðhetju. Það eru að sjálfsögðu verk hans, hugsun og framganga. Það sem hann fékk áorkað. Á fótstalli styttu hans á Austurvelli er höggmyndin Brautryðjandinn eftir Einar Jónsson. Hún er minnisvarði um verk Jóns Sigurðssonar.

Það er heldur ekki veigamesta atriðið hvaða dag Jesús Kristur fæddist. Fyrst og fremst eru það orð hans og athöfn sem skipta máli. Hann kenndi, upplýsti og leiðbeindi um leiðir manna til þeirra sjálfra. Hann kenndi fólki að leita inn í sig að kjarna persónu sinnar: „Því sjá, Guðsríki er hið innra með yður.“

Í kenningum innvígðra manna sem uppi voru löngu fyrir daga Móse segir: „Þú geymir innra með þér dýrlegan vin, sem þú þekkir ekki, því að guð býr hið innra með hverjum manni, en fáir geta fundið hann.“ Aftur og aftur í gegnum sögu mannsins segir frá því þegar menn fóru frá sjálfum sér og leituðu að hamingju eða lífsfyllingu á öðrum vettvangi.

Þess vegna hafa í hverri kynslóð, allar götur síðan, komið fram menn sem fengu köllun til að vekja fólk og hvetja það til að koma aftur til sjálfs sín. Flestir þeirra voru drepnir af ríkjandi valdi þjóðar sinnar sem fannst valdi þeirra og yfirráðum ógnað. Þannig fór og fyrir Jesú frá Nasaret.

En nú halda menn hátíð. Hátíð til minningar um fæðingu frelsarans Jesú. Jól. Hún er haldin á dögunum þegar dagana tekur að lengja. Birtan að aukast. Með Kristi eykst ljósið í lífi „með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.“

Þegar ég kveiki á kerti, þá lýsir birta kertisins mér. Ef ég kveiki ekki á kerti fer ég á mis við þá birtu. Velþóknunin felst í ljósinu sem ég kveiki. Ásamt ylnum sem af því stafar.
Enda ég þennan pistil með bestu óskum til þín frá okkur Ástu, lesandi góður, um gleðileg jól.

Eitt andsvar við „Fæðing frelsara – gleðileg jól“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.