Rabbi á Svarfhóli – útför á aðventu

Reykholtskirkja var þéttsetin í gær. Margir stóðu. Alvaran lá yfir. Kórinn söng „Á hendur fel þú honum.“ Hugurinn reikaði. Rifjaði upp. Ellefu ára gamall fór ég í mína fyrstu ferð út fyrir Reykjavík í aðra átt en til afa og ömmu á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Hlýja og vernd höfðu einkennt sumrin þar. Dagana og næturnar.

En nú var haldið í Borgarfjörð. Þar þekkti ég ekki eina einustu sál. Í huganum tókust á tilhlökkun og kvíði. Svo birtust þeir tveir saman, Jósef bóndi á Svarfhóli og ungi vinnumaðurinn Rafn Ásgeirsson. Jafnan kallaður Rabbi. Þegar ég sá hlýlegt andlit hans varð allt gott. Ég lagði traust mitt á hann samstundis. Frá ferðinni upp eftir segir nokkuð í þessum pistli.

Rabbi á Svarfhóli
Rabbi á Svarfhóli

Kórinn söng „Lýs milda ljós.“
Það eru sextíu ár síðan. Rafn var nítján ára. Hafði verið á Svarfhóli í nokkur ár. Ég var settur í herbergi með honum. Býst ekki við að hann hafi verið sérlega hrifinn af því. En við áttum trúnað hvors annars. Mitt hlutskipti var þó fremur að hlusta. Nítján ára piltur hefur miklar væntingar til lífsins og lætur þær uppi. Það voru margar kaupakonur á Svarfhóli.

Kórinn söng: „Nú legg ég augun aftur.“
Það urðu einskonar straumhvörf í lífi mínu á Svarfhóli. Í Fljótshlíðinni var ég dreyminn. Sat úti í túni og blés í biðukollur. Talaði við sóleyjar og tíndi kúmen. Á Svarfhóli bjóst ég við áframhaldi á því. Átti vini í móunum. Lóur og spóa og tjalda niður við Norðurá. Ég starfaði með þeim við hreiðurgerð, útungun og uppeldi unga. En það var ekki ætlun Jósefs bónda að ég lægi í draumum.

Svarfhóll árið 1948

Kórinn söng: „Ég fel í forsjá þína.“
Einn daginn varð uppi fótur og fit á bænum. Allt heimilisfólkið safnaðist saman norðan við hestaréttina. Eftirvænting var í loftinu. Sláttur skyldi hefjast. Mósi og Geirshlíðarjarpur voru spenntir fyrir sláttuvél. Jósef settist upp á sláttuvélina. Hottaði ákveðið á hestana og hvatti þá með aktaumunum. Mósi rykkti sér fram. Jarpur bakkaði. Jósef skipaði. Mósi prjónaði.

Óskar Pétursson söng: „Hamraborgin.“
Jósef sló aktaumunum á lendar kláranna. Loks geystust þeir af stað. Jósef fór einn hring. Mótaði skák. Stoppaði svo þar sem heimilismenn stóðu og fylgdust með. Ég var svolítið til hliðar. „Sestu upp á vélina strákur,“ sagði Jósef. Ég varð skelfingu lostinn. „Ég, til hvers?“ „Þú átt að slá.“ „Ég kann það ekkert,“ sagði ég og varð þurr í munninum og skelfingu lostinn. „Þú lærir það.“

Kórinn söng: „Blessuð sértu sveitin mín.“
Skjálfandi á beinunum fór ég upp í sætið. Náði ekki niður á pedalann sem lyftir greiðunni. Jósef rétti mér taumana. Ég sat stjarfur. Sagði loks „Hott.“ Ekkert gerðist. Sagði „Hott, hott.“ Eða kannski hvíslaði ég því. Þá kom Jósef og sló með afli á lendar kláranna. Fyrst rykktu þeir í til skiptist. Svo geystust þeir áfram. Mósi var greinilega öskureiður. Ég skíthræddur.

Kórinn söng: „Allt eins og blómstrið eina.
Þegar kom að fyrsta horni skákarinnar reyndi ég að stíga á pedalann til að lyfta greiðunni. Varð að fara úr sætinu til að ná niður. Reyndi að bakka hestunum og snúa. Mósi var enn reiður. Og ég hræddur. Þegar skákin var búin var kominn matartími. Mig langaði ekki í mat. Gat ekki rétt úr krepptum fingrunum eftir takið á aktaumunum.

Kórinn söng: „Hærra minn Guð til þín.“
Um kvöldið ræddi Rabbi við mig. Útskýrði eitt og annað fyrir mér. Talaði úr mér kvíðann og hughreysti mig. Sýndi mér mikla vináttu og samhygð. Og þannig var sumarið. Margvíslegir sigrar. Hughreysting, vinátta og umhyggja Rafns skiptu sköpum. Þetta sumar sló ég öll tún og engjar á Svarfhóli með Mósa og Geirshlíðarjarp fyrir sláttuvélinni. Dagarnir urðu hamingjudagar hestarnir mínir bestu vinir eins og Rabbi varð minn besti vinur. Sumarið sem ég var ellefu ára. Síðan hefur Borgarfjörður verið sveitin mín.

Á heimleiðinni frá kirkju í gær, farþegi í bíl hjá Ágústi syni mínum, hugsaði ég hljóður til ársins 1948 og hvíslaði inni í mér: „Hafðu þökk kæri vin.“

4 svör við “Rabbi á Svarfhóli – útför á aðventu”

 1. Sæl aftur, Gurrí. Þetta er bráðskemmtilegt.
  Þakka þér kærlega fyrir.

 2. Man ekki mikið eftir Rabba nema hann var mjög góður við stelpuskottið af Skaganum. Bjargaði líklega lífi mínu einu sinni. Ég var að flækjast í kringum fólkið sem hafði handsamað nokkra hesta að kvöldi til og króað þá af í horni nokkru. Folald slapp og eftir smástund rauk hryssan, mamman, af stað og bandhrúga sem ég stóð á fór af stað og ég þeyttist með niður að Norðurá, klettótt og bratt, eins og þú manst. Rabbi var snöggur að hugsa, gerði sér lítið fyrir og henti sér ofan á mig og tókst að losa mig, allt gerðist á nokkrum sekúndum. Ég hefði a.m.k. slasast illa ef hann hefði ekki gert þetta.
  Blessuð sé minning hans.
  Vil líka hrósa færslunni þinni, hún er einstaklega ljúf og falleg.

 3. Sæl Gurrí. Gaman að þessu. Víst er þetta sami Svarfhóllinn. Góður staður í fallegri sveit.
  Takk fyrir athugasemdina.

 4. Ég held að þú hljótir að vera að tala um sveitina mína sem ég fór í 11 ára gömul, 1969. Svarfhól í Stafholtstungum. Passaði litla sæta stelpu, Hrafnhildi (minnir mig að hún heiti), allt sumarið. Húsfreyjan hét Hilda, bóndinn Rafn og „gamla“ konan á heimilinu Jóhanna. Þetta var frábært sumar og fólkið gott. Verið var að byggja nýtt íbúðarhús þetta sumar. Þetta hlýtur að vera „Svarfhóllinn“ minn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.