Riddarar Moggans og Jóhanna Sigurðardóttir

Það vekur spurningar að lesa Staksteina dagsins um riddaratign Jóhönnu Sigurðardóttur. Höfundurinn hnýtir í hana fyrir of mikinn einleik og ráðleggur henni að láta af og rekast betur. En það er einmitt það sem ég hef alltaf kviðið fyrir með viðleitni Jóhönnu til að hlúa að lakar settu fólki, að hún hefði ekki stuðning meirihluta ríkisstjórnarinnar.

Það hefur verið til siðs undanfarin ár að þrengja að eldri borgurum, öryrkjum og öðrum minnihlutahópum. Væntanlega af því að þeir liggja vel við höggi og koma engum vörnum við. Þeir hafa verið hafðir útundan um árabil og svo hart gengið fram í því að ráðgjafar stjórnarinnar hafa staðhæft árum saman að engir fátækir fyndust á Íslandi. Sem eru undarleg vísindi.

Nýir pennar á Mogganum auka ekki veg sinn með því að gera lítið úr Jóhönnu. Skjólstæðingar hennar eiga ekki marga málsvara og veitir ekki af einum skeleggum á þessum hörmungatímum sem svokallaðir fullsterkir hafa alið af sér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.