Vissulega eftirminnilegur dagur

Við fórum til að helga okkur endurminningum, tvö saman, hjónin. Og til að halda upp á tímamót. Fórum upp í Borgarfjörð í litla kofann sem við höfum verið að tjasla saman síðastliðin fimm ár. Þar er okkar griðastaður. Heitir Litlatré.

Það var logn, hvít jörð og hitinn rétt um frostmark þegar við mættum þar síðdegis á miðvikudag, tvö saman, hjónin, frú Ásta og ég. Og tilefnið ærið. Nú áttum við þrjá heila sæludaga fram undan, næstum fjóra og nutum þess út í æsar.

Veðurspáin var hrikaleg fyrir alla dagana. Stormviðvörun og stórhríðar. Þau náðu aldrei til okkar. Veðurblíða alla dagana. Við fórum í göngu um nágrennið og bjuggum um lausamuni fyrir veturinn og það var svo bjart og skemmtilegt og við hlógum og snertum hvort annað og allt var svo gott.

Bækurnar í farteskinu voru Pálssaga, sem Ásta er að lesa og skellihlær stundum að. Sjálfur hafði ég Allar smásögur Tolstoys og þýðinguna frá 2006 á sögunni af „skelfilegu skorkvikindi“ Kafka.

Aðaldagurinn var svo í gær laugardag. Þá ákváðum við að aka Krókinn, sem svo er kallaður, en það er fremsti hluti Hvítársíðu. Hann tekur við af Miðsíðu sem endar við Bjarnastaði. Þetta var skemmtileg ferð. Afar kyrrt og hljótt en fé að krafsa eftir stráum í snjónum við suma bæina.

Í Skóginum austan við Melshorn
Í Skóginum austan við Melshorn

Í Skóginum austan við Melshorn stóðu nokkur hross í höm. Við rifjum alltaf upp atvik þegar við keyrum yfir Djáknalæk sem og Hrauná en nokkrar kindur voru á beit neðan við gamla brúarstæðið. Í Bótinni málaði Hafsteinn Austmann málverk fyrir hálfri öld, með gömlu brúna í forgrunn, Hraunhúseyrar, jöklana og Hafursfell í bakgrunn. Við eigum þessa mynd.

Bæjargil í vetrarbúningi
Bæjargil í vetrarbúningi

Svo stönsuðum við við Bæjargil og ræddum vetrarbúning þess sem er töfrandi. Eins er með Hellisgil og Hellisgilskjaftinn. Við eigum ótal minningar frá öllum þessum stöðum. Hverri þúfu og hverjum stíg. Næst ókum við upp á Melana og horfðum heim til bæjar frá túnhliðinu. Stönsuðum þar dágóða stund, þögul og héldumst í hendur.

Hellisgil. Ótal minningar frá öllum þessum stöðum
Hellisgil. Ótal minningar frá öllum þessum stöðum

Þvínæst ókum við eins og leið liggur fram Krókinn. Hvergi var lífsmark að sjá nema kindur við útihúsin á Þorvaldsstöðum. Í Kalmanstungu stönsuðum við og þáðum kaffi og kleinu hjá Bryndísi bónda, systur Ástu og Kalmani. Þegar heim í Litlatré kom lá fyrir að elda minningamáltíð.

Kindur þræða einstigi í snjó
Kindur þræða einstigi í snjó

Undirstaðan var hangikjöt. Með því var hveitijafningur með kartöflum, gulrótum og grænum baunum frá Ora. Ásta bjó til svokallað ömmusalat sem samanstendur af þeyttum rjóma, eplum og súrsuðum rauðrófum. Með þessu drukkum við blöndu af malti og appelsíni.

Þannig var þetta á Bjargi við Suðurgötu um hádegisbil þennan dag. Móðir mín Gunnbjörg Steinsdóttir bauð okkur í mat, nýgiftu parinu, 25 október 1958. Við rifjuðum daginn upp í gær, á griðastaðnum okkar, Litlatré og fögnuðum gulli.

7 svör við “Vissulega eftirminnilegur dagur”

 1. Góðan daginn

  Vil biðja „Ástu “ sem las og skellti upp úr við lestur Pálssögu á ferðalagi að hafa samband við mig.
  s. 899 3267

 2. Við, gamla settið, Ásta og Óli, þökkum fyrir góðar kveðjur og óskir. Megi kreppan sniðganga hús ykkar og tilveru.

 3. Tek undir hamingjuóskir með daginn og fallega myndskreyttan Borgarfjörð!

 4. Hjartans hamingjuóskir og þökk fyrir fallegan pistil af þessu tilefni.

 5. Þetta hefur greinilega verið góður dagur, bæði þá og ekki síður nú, 50 árum seinna.
  Innilegar hamingjuóskir til ykkar hjóna með 50 árin. Gaman fyrir ykkur að skarta gullinu, á svona fögrum degi, eins og myndirnar sýna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.