Dásamlegir tímar – aldrei betri tímar?

Þeir voru ekki trúverðugir bankastjórarnir um árið þegar þeir gerðu atlögu eftir atlögu að Íbúðalánasjóði og kröfðust þess að hann yrði lagður niður og þeim fengið verkefni hans í hendur. Það mundi bæta hag almennings verulega og þeir, bankarnir, mundu halda vöxtum lágum og óbreyttum um ókomin ár. Nú hefur hið rétta andlit þeirra komið í ljós. Hvað hefði orðið ef Íbúðalánasjóður hefði verið lagður niður?

Þeir eru heldur ekki trúverðugir verslanaeigendur þegar þeir hrópa í nafni einhvers sem þeir kalla frelsi og gera kröfu um að sala á áfengi verði færð inn í dagvöruverslanir. Nokkuð ljóst er að eðli þessa frelsis sem þeir kalla svo á rætur í hagnaðarvon þeirra fremur en ávinningi almennings. Verðlagningafarsi og sögur af lóðaforréttindum þeirra stóru á síðustu vikum hafa heldur betur sýnt fólki inn í hugarheim stéttarinnar. Þar er ekki unnið í nafni frelsis.

Þeir fjármálaspekulantar sem hafa reynt að sjúga blóðið úr Orkuveitunni á síðustu vikum hafa ekki dulið hvað þeir girnast mjög að komast yfir verðmæti almennings, sér og sínum til ábata og það þótt þeir eigi svo mikið fyrir að þeir kunna varla að telja það. Græðgi þeirra virðist engin takmörk hafa.

Dásamlegir tímar, segja stjórnmálamenn, aldrei betri tímar. Og berja sér á brjóst og segja með fasi og framkomu: „Erum við ekki dásamleg?“

En kjörin hennar Halldóru, sem býr í Hraunbænum með börnin sín fjögur, eru slík, eftir að barnsfaðir hennar yfirgaf hana, að hún á ekki fyrir mat í síðustu viku hvers mánaðar. Og á Íslandi eru þúsund slíkar Halldórur og ekki líklegt að þær segi í gegnum tárin þegar börnin þeirra gráta af hungri: Dásamlegir tímar, – aldrei betri tímar.

Eitt andsvar við „Dásamlegir tímar – aldrei betri tímar?“

  1. Rétt hjá þér allveg ótrúlegt hvað svokölluðum fjárfestum og stjórnmálamönnum dettur í hug, og reyna að telja fólki trú um að sé gert fyrir almenning!!! Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.