Fáein fátækleg kveðjuorð.
Það er ekki margt fólk eftir af þeim kjarna hvítasunnumanna sem var í kjölfestu hreyfingarinnar á miðri síðustu öld. Þeim fækkar þessi árin og kjölfestan léttist stöðugt. En kynslóðir koma og kynslóðir fara og víst er það saga mannanna á þessari jörð, þar sem þeir eru aðeins gestir og útlendingar um skamma stund.
Guðbjörg var hvítasunnumaður. Hún var ólík mörgum hinna. Hugsaði hærra. Var frjálsari í skoðunum. Hafði einlægan áhuga á útbreiðslustarfi, trúboði. Talaði um Krist eins og konung, frelsara, Drottin og góðan vin. Hún naut þess að segja öðrum frá honum, lagði sig fram um að leiðbeina og benda á uppörvandi orð sem innihéldu afl ljóss og vonar. Hún hvatti nýliða, stappaði stálinu í þá sem sýndu frumkvæði á sama tíma og aðrir héldu fundi og fluttu ræður til að sussa á þá. Hún var ein af þessum hetjum sem ekki lét sér nægja að tala heima í eldhúsi heldur fór út og sagði frá. Það var gott að ræða við hana í mótvindi. Þá talaði hún af reynslu.
Guðbjörg og maður hennar, Jónas Jakobsson sem er löngu látinn, sýndu okkur hjónum vinsemd strax frá fyrstu kynnum. Ásta starfaði með Guðbjörgu í nokkur ár, bæði með stjórn Systrafélags safnaðarins sem og heimsóknum til eldri borgara, sem þær reyndu að uppörva með nærveru og kærleika. Þá lagði Ásta til bíl og ók þeim og Guðbjörg kom með gítarinn sinn. Með þeim tókst einlæg vinátta. Jónas, sem bæði var skáld og listamaður, tók á móti gestum af alúð og hlýju í vinnustofu sinni á Klapparstígnum, þar sem hann mótaði fólk í leir með næmum fingrum og lagði til mála og hjálpaði til við að skilgreina eðli hindrana sem á vegi flestra verða.
Nú eru þau bæði farin yfir móðuna miklu inn í þá óræðu veröld sem þar tekur við.
Við kveðjum Guðbjörgu Guðjónsdóttur í dag með þakklæti og virðingu. Hún var stólpi. Ástvinum hennar vottum við einlæga samúð.
Óli Ágústsson
Ásta Jónsdóttir
Sæll Óli.
Ég vil nota þetta tækifæri (var að leita að minngargreinum um mömmu ) og þakka þér þessi fallegu orð um mömmu sem við elskuðum öll, börnin hennar, barnabörn og barnabarnabörn og auðviatað syskini og vinir. Mamma var eins og þú lýsir henni,“Hún var ein af þessum hetjum…“ „Hún var stólpi“… og þessa fengum við fjölskylda hennar að njóta alla tíð.
Ég endurtek þakklæti mitt fyrir þessi fallegu orð.
Ríkarður Bergstað.