Konur sem baka brauð

Hún hefur lætt sér upp úr dýpri vitundarhólfunum undanfarnar vikur minningin um brauðið hennar Önnu á Gilsbakka. Þegar ég segi Önnu á Gilsbakka, þá á ég við Önnu Brynjólfsdóttur sem var húsfreyja þar þegar ég kom þangað sumarstrákur fyrir afar mörgum árum. Og eins og gjarnan gerist með hækkuðum aldri hjá fólki þá sækja ýmsar eldri minningar á.

Brauðið hennar Önnu er eitt af því sem aftur og aftur hefur komið upp í hugann og ríkulegt matarborðið sem hún bar fram fyrir heimilisfólkið og svangir unglingar borðuðu af mikilli nautn. Það var samt ekki fyrr en í gær að ég bakaði þetta brauð. Svolítið hikandi studdist ég við bók Helgu Sigurðardóttur, andaði djúpt og hvað haldið þið?

Brauðið varð nákvæmlega eins og brauðið hennar Önnu á Gilsbakka. Bæði bragð og útlit. Svo að ég fór í búð í dag og keypti allt meðlæti sem ég mundi eftir til að endurskapa þetta borðhald sem hefur aftur og aftur minnt á sig undanfarnar vikur. Og annað kvöld býð ég Ástu minni, en hún var á Gilsbakka samtímis mér og skilur hvað ég er að tala um, í nostalgíu málsverð.

Á borðum verður heimabakað hveitibrauð eins og Anna bakaði, smjör, rúllupylsa, kindakæfa, reyktur silungur og ostur og skyr og skyrhræringur. Öll áleggin á Gilsbakka voru heimagerð á þeim árum, nema osturinn. En það ræð ég ekki við að gera. Sýnist þó að þetta komist ég næst því að endurlifa borðhaldið eins það var þegar ég var fjórtán ára. Og er fullur af tilhlökkun. Ég segi það satt.

2 svör við “Konur sem baka brauð”

  1. Helgu Sigurðardóttur, heillin.
    MATUR OG DRYKKUR, bls.449.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.