Heilög jörð. Friðlýst og helgað svæði

Íslensk orðabók segir: helgi kvk 1 helgað eða friðlýst svæði, það sem ekki má spilla.

Margt fólk á í hjarta sínu svæði, helgað og heilagt, sem er því dýrmætara en önnur og því friðlýst og umgengin með djúpri lotningu. Oft hafa þessi heilögu svæði gert sér bústað innst í hugskoti fólks í framhaldi af trúarreynslu sem það upplifði á stundum mikillar alvöru, átaka og angistar, þegar allt var horfið því nema ákall til Guðs.

Margt fólk hefur upplifað svo undursamlega svörun Guðs við andvarpi sínu, gegnumflæði ólýsanlegra strauma, að það varð aldrei samt eftir. Þeir sem trúa á Jesúm Krist og hafa meðtekið af lífi hans líf, horfa á píslargöngu hans með harm í hjarta, lifa texta ritninganna hljóðir, kvöldmáltíðina, bænastundina í grasgarðinum og krossfestinguna.

Margt fólk sem ann textunum og dvelur við orð og frásögn ritninganna af píslargöngu frelsarans „dregur skó af fótum sér því staðurinn er heilög jörð.“
Heilög jörð. Friðlýst og helgað svæði.

En auðvitað er til fólk sem sér ekki ástæðu til að fara úr skónum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.