Fjölmiðlarnir og gáskinn

Vonandi tekst Blaðinu að auka svo sjálfstraust sitt að venjulegt fólk hlakki til að sækja það niður í anddyri. Fréttablaðið er aftur á móti þannig að manni er alveg sama þótt það komi ekki. Reikna má með að ritstjórnir blaða hafi komið sér upp vissum markhópi inni í hausnum á sér og velji eða hafni efni í blað dagsins með hann í huga. Áríðandi hlýtur að vera að komast hjá of löngum meðgöngutíma svo að innvolsið verði ekki að
steinbarni.

Eitt af því sem heldur lífi í fólki eftir starfslok eru fjölmiðlar. Eldri neytendur þeirra horfa á þjóðfélagið í gegnum fjölmiðla. Efnisval og framsetning eru því mikilvægir þættir. Með aldrinum treystir maður sumum miðlum og fréttamönnum betur en öðrum. Þá er heldur ekki sama hverjir skrifa um daglegt líf, léttleikann og gáskann í tilverunni. En þau skrif geta haft allnokkur áhrif á andrúm dægranna í hugskoti manna.

Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamanni á Blaðinu, tekst stundum betur upp en öðrum í því að skrifa léttan og hnyttinn texta. Ég hefði lagt til að hún yrði meðritstjóri á Lesbók Morgunblaðsins. Ástæður eru fyrir því sem ég ræði ekki nánar.

Í morgun má sjá eftirfarandi tilvitnun í Blaðinu, í Kollu og kúltúrnum, eftir Margaret Mead:

„Konur vilja meðalmenni og karlmenn vinna hörðum höndum að því að verða eins mikil meðalmenni og hægt er.“

Minnir þessi tilvitnun á aðra, sem er eftir franska rithöfundinn Francoise Sagan:

„Ég kann því vel þegar karlmenn haga sér eins og karlmenn. Ég vil hafa þá sterka og barnalega.“

Eins og sjá má af pistli þessum þá hafa morgunblöðin talsverð áhrif á hugi manna. En að því slepptu þá er ég að hefja endurlesningu á Hundrað ára einsemd eftir Marquez. Í gærkvöldi sagði frá því, á blaðsíðu tíu, þegar Jose Arcadío Búendía lýsti við hádegisverðinn, titrandi af innri ólgu uppgötvun sinni:
„Jörðin er hnöttótt eins og appelsína.“
Úrsúla (kona hans) missti þolinmæðina og æpti:
„Ef þú þarft að gera þig óðan, gerðu það þá í einrúmi.“

Njótum dagsins.

Eitt andsvar við „Fjölmiðlarnir og gáskinn“

  1. Ég samgleðst þér að vera að lesa Marquez :]
    Ég á 2 eintök af „Ástin á tímum kólerunnar“ dugir ekki minna.
    Sjálf er ég að lesa „hundabókina“ eins og hún er kölluð á þessu heimili. Allir búnir að lesa hana oft.
    „Furðulegt háttaleg hunds um nótt“ eftir Mark Haddon. Hún er einstök.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.