Góðir dagar …. Niðurlag.

Það er komið nóg af Glasgow og Edinborg. Meira en nóg. Síðasta deginum eyddum við að talsverðum hluta í Cathedralinu við Kastalastræti. Það er dómkirkjunni. Hún er stórkostleg bygging. Á upphaf að rekja til áranna um 600 eftir Kristsburð. Tign hennar og göfgi taka á móti manni um leið og gengið er inn á hellulagt svæðið framan við hana. Vorum snemma á ferð og fáir aðrir ferðamenn komnir á kreik.

Á bekk framan við kirkjuna sátu þó eldri hjón og nutu nestis síns. Ég bauð þeim góðan dag og karlinn spurði hvaðan við værum. Iceland.? Það þótti þeim fyndið. Sjálf voru þau frá Indlandi. Þegar inn í Dómkirkjuna kom, þessa miklu og glæsilegu hvelfingu í risvöxnu musterinu, tók ég ósjálfrátt ofan. Hattinn minn.

( Þetta með hattinn kom þannig til að alpahúfan mín, til fjölda ára, ákvað að fara í sína eigin flugferð þegar við komum til Keflavíkur á útleið. Þaut upp í þrjú þúsund feta hæð og hvarf vestur um haf. Ég harma hana. Við leituðum svo að alpahúfu í óteljandi búðum þegar til Skotlands kom. „No, we are sorry, sir. Very sorry, sir.“ Sama svarið allstaðar. Þá ákvað Ásta að láta mig kaupa hatt. Já, svei mér þá. Ég keypti hatt. Og tók hann ofan þegar inn í Cathedralið kom.)

Það er ekki einfalt, með orðum, að lýsa áhrifunum sem við urðum fyrir þarna. Áhrifum sem fyrst og fremst tengdust kynslóðunum. Fólkinu sem hafði komið þarna, öld eftir öld og fyllt upp í fátækum anda sínum með orðum huggarans. Knappt verður um orð. Þykist heyra á milli bekkjanna lágt andvarp hinna mæddu, krjúpandi í skugganum við útveggina á bak við súlurnar: „Drottinn minn og Guð minn.“

Leikið var á orgel kirkjunnar, þrumandi Bach og ýmsir sálmar sem við þekkjum. Litlu síðar kom kór á svæðið, um tuttugu til þrjátíu ungar manneskjur. Sum þeirra með strengi og önnur með brass. Kórinn og orgelið eru á einskonar brú á milli tveggja hvelfinga. Tónarnir berast um alla kirkjuna, niður í elsta hlutann og um margbreytilega rangala og hljóma stórkostlega. Fleira fólk bættist við og erill og ys. Menn í hempum og aðrir með prestakraga og ungur maður í jakka með gylltum tölum. Svo var kveikt á hljómkerfi og ungi maðurinn steig í púlt og annar sagði honum til.

Að lokinni skoðun á dómkirkjunni litum við inn í Mungo safnið. Fengum kaffi og kolvetnaríkt meðlæti. Að því loknu gengum við vestur eftir háskólahverfinu við Chatredal Street í átt að Buchanan Bus Station.

Og nú voru síðustu forvöð að taka myndir og kveðja vini á hinum ýmsu veitingastöðum. Láta svo daginn enda í góðum mat og þægilegri setustofu veitingahúss.

En Bar 185 var lokaður alla dagana. Það voru vonbrigði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.