Eftir vonbrigðin á laugardeginum, afmælisdegi Ástu, sem við höfðum ráðgert að eyða í Edinborg, sjá hér þá settum við í okkur kraft og fórum þangað daginn eftir. Það var mun friðsælla yfir tilverunni þann dag. Lestin brunaði mildilega af stað og það fór vel um okkur.
Eftir um 50 mínútur komum við til Waverley. Það var um hádegisbil. Andrúmsloftið í Edinborg er ólíkt því í Glasgow. Þar er rýmra, bjartara og fólkið ólíkt. Á einhvern hátt skynjar maður mun án þess að geta fest orð á honum. Það er eins og fólkið sé hávaxnara, betur klætt, frjálsara. En þar eru líka þurfalingar sem sitja á gangstétt á aðalgötu borgarinnar með hundinn sinn og vænta ölmusu.
Það var kalt í loftinu og ekki þægilegt að vera úti. Við hófum samt götu og strætaráp og einhverjar minningar átti Ásta um góðar verslanir á Princes Street síðan við heimsóttum Gunnbjörgu þangað, en hún var þar við nám í fimm ár. Ásta vildi rifja upp þessar ágætu verslanir. Ég reyndi að vafra um með myndavélina en birtan var óhagstæð.
Eftir nokkurt ráp um Princes Street og að sjálfsögðu Rose Street, settumst við inn á lítinn veitingastað sem ber það ágæta nafn Ivanho og er í brekkunni við St. David. Í innra herbergi sat fólk og horfði á hafnarbolta í sjónvarpi af ástríðu. Við fundum krók frammi við glugga og tylltum okkur þar. Fengu þar bragðlitla linsusúpu sem var kölluð súpa dagsins. Ekki höfðum við setið lengi þegar fimm manna hópur kom þangað að næsta borði, fjórar konur og einn piltur.
Dvölin í Edinborg varð í styttra lagi og fórum við til baka til Glasgow um kvöldmatarleytið. Þar fundum við góðan ítalskan matsölustað og fengum ágæta þrírétta máltíð sem bætti daginn upp. Og ræddum næsta dag sem var sá síðasti í ferðinni. Það varð góður dagur.
Heyrumst.