Góðir dagar í Glasgow og Edinborg II

Ferðinni lauk í gær. Frónið fagnaði okkur innilega með útbreiddan vestanfaðminn og tilbrigðum hans. Komin heim til okkar síðdegis, með efni í kjötsúpu keypt á leiðinni, kórónaðist tilveran. Síðan, eftir fimm daga Mogga, Lesbók og þjóðlega súpuna virtist ánægjan varla geta orðið miklu meiri. Ferðin í flestum atriðum góð.

Veðrið stjórnaðist af sömu vestan áttinni og við þekkjum hér, nema í stað élja rigndi í hviðunum. Gerðum því eins og flestir heimamenn, keyptum regnhlífar og vorum til í allt. Dáðumst að þurfalingnum sem sat á gangstéttinni á hinu mikla Argyle – stræti og bað fólk um ölmusu fyrir sig og hundinn sinn, sem hann hafði sett teppi undir og yfir og regnhlíf þar yfir. Dýrinu virtist líða vel.

Þar sem ferðin var afmælisferð Ástu þurfti að skreyta tilveruna með blómum á einhvern hátt. Við innganginn í Prince Square fundum við önnum kafna blómaskreytingakonu og stöldruðum við hjá henni og horfðum á hana vinna. Tókum skreytingu með okkur í myndavélinni. Blómin litrík og falleg og ólík gráum verslunarstrætum stórborga. Við rjátluðum síðan um strætin og skoðuðum götulífið.

Það er alltaf jafn forvitnilegt að fylgjast með fólki. Fylgdumst með einu og öðru pari, einni og annarri fjölskyldu, fólki að borða og fólki að versla, fólki að flýta sér og öðru að slóra. Á einum stað stóð ungt og fallegt japanskt par og reifst ógurlega. Þetta var ungt fólk, fallegt fólk og vel til fara. Ásta hafði rjátlað inn í verslun og ég fylgdist með deilum ungmennanna. Heyra mátti að reiðin ágerðist og konan stappaði niður fæti. Rimman endaði með því að hún tók af manninum tösku, innkaupapoka, lykla og veski. Síðan strunsuðu þau í sína áttina hvort.

Ég hafði á tilfinningunni að ungi maðurinn hefði gert á hluta stúlkunnar sinnar, brugðist henni í einu eða öðru. Iss, þessir karlmenn. Alltaf sama sagan. Allir eins.!!!

Ysinn og þysinn á strætunum vakti upp minningar um lag sem þeir sungu á ógleymanlegan hátt Haddi og Laddi, um árið:

„Ég inní Austurstræti snarast létt á strigaskónum,
með bros á vör og tyggigúmmí í munninum.
Ég labba um og horfi á liðið sem er þar í hópum
frá lassarónum upp í snobbaðar kerlingar.

Austurstræti, ys og læti,
fólk á hlaupum í innkaupum,
fólk að tala, fólk í dvala og fólk sem ríkið þarf að ala.“

Þetta var góður dagur. Heyrumst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.