Við kynntumst á hnjánum

Var við útför vinar í dag. Frá Bústaðakirkju. Séra Pálmi Matthíasson jarðsöng. Það var fjölmenni. Margir þurftu að standa, bæði við veggi og í fordyri. Það kom á óvart. Í mínum huga var vinurinn innhverfur einstaklingur. Maður fárra orða. Hógvær og lítillátur. Við kynntumst á hnjánum. Það er yfirleitt öðruvísi fólk sem ég kynntist á hnjánum. Krjúpandi í bæn til frelsarans: „Jesús. Jesús Kristur. Ég er hjálpar þurfi. Æ, viltu hjálpa mér.“

Þessi vinur hét Ólafur Theódórsson. Hann lést um aldur fram. Aðeins fimmtíu og sex ára. Greindist með krabbamein í brisi og lifur í nóvember s.l. Vegir Guðs eru órannsakanlegir. Við áttum samleið um nokkurra ára skeið. Hann var hugljúfi. Hvers manns. Við unnum saman um hríð. Það var í Samhjálp hvítasunnumanna. Hann var öndvegismaður. Lipur. Samviskusamur. Alltaf reiðubúinn. Í allri hógværð.

Ólafur átti sér óskasálm. Lofgjörð til Drottins. Til Jesú Krists. Allt megnar þú, Jesús, minn Drottinn og Guð. Hann hafði lært hann í Þríbúðum, samkomusal Samhjálpar hvítasunnumanna við Hverfisgötu í Reykjavík. Sálmurinn var sunginn við útförina í dag.

Allt megnar þú

Glaður ég horfi nú himins til,
Jesús, minn Drottinn og Guð.
Og hugrakkur fylgja þér ætíð ég vil,
Jesús, minn Drottinn og Guð.

Viðlag: Allt megnar þú, allt skilur þú
Jesús, minn Drottinn og Guð, minn Guð.
Allt sem ég þarfnast, geri og kann,
Jesús er drottinn og Guð.

Baslið sem þjáði mig búið er,
Jesús, minn Drottinn og Guð.
Minn blessaði Frelsari, tók það frá mér,
Jesús, minn Drottinn og Guð.

Viðlag: Allt megnar þú…..

Allar þær sorgir sem sóttu á,
Jesús, minn Drottinn og Guð
og syndir og kvíða, rakst þú mér frá,
Jesús, minn Drottinn og Guð.

Viðlag: Allt megnar þú, allt skilur þú,
Jesús, minn Drottinn og Guð, minn Guð.
Allt sem ég þarfnast, geri og kann,
Jesús er drottinn og Guð.

Höfundur texta Óli Ágústar. Lag Gaither.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.