Einn – út í bláinn

Þetta er ágætt orðatiltæki. Út í bláinn. Um það segir m.a.í orðatiltækjabókinni Merg málsins; …út í bláinn,…tala út í bláinn,…skrifa út í bláinn,…fara út í bláinn = að halda í óvissa stefnu.“ Það var einmitt það sem ég gerði í gær. Hélt í óvissa stefnu. Einn míns liðs.

Veðrið var blátt. Himinn heiður og sól hátt á lofti. Hafnaði orðræðu við sjálfan mig. Fór út í bíl og ók af stað. Út í bláinn. Hin sálin í mér vildi komast að og draga úr mér. Ég gekk yfir hana. Þó veit ég að hún hefur meiri greind en ég. Skítt með alla greind. Út vil ek – í bláinn. Eftir að hafa keyrt þrisvar umhverfis hringtorgið við Rauðavatn og reynt að ákveða hvert halda skyldi, kom þessi svakalega stóri „trailer“ með risafarm og hrakti mig út úr hringtorginu. Í austur. Frekja.

Fyrst í stað ætlaði ég að dóla þetta á sjötíu og njóta þess að góna og glápa. Það er svo langt síðan leið mín hefur legið austur fyrir fjall. En svei mér þá ef bílarnir sem komu næstir á eftir mér voru ekki farnir að pota í púströrið á mínum bíl. Frekja. Ég tók það ráð að aka á vegöxlinni með stefnuljósið á. Ekki nema það þó, pota í pústið.

Það var margt að sjá á leiðinni. Sterklegar leiðslur og gufustrókar umhverfis virkjanir á heiðinni. Glæsileg afrek mannanna. Tákna beislun orku, framleiðslu, atvinnu, arð. Hjarta mitt hrærðist og fylltist aðdáun. Tók alpahúfuna ofan til að tjá virðingu mína. Horfði með samskonar aðdáun á möstrin og strengina sem flytja orkuna. Hvað er hægt annað en að hrærast.

Hrærast! Yfir hverju? Auðvitað yfir hagvexti og allsnægtum. Skil samt ekki seinfæra dverginn í hjarta stjórnmálamannanna sem lætur hluta þjóðarinnar svelta. Og ekki bara í mat, heldur einnig í huga og hugsun. Sá sem aldrei nær að láta enda ná saman er bundinn við angist og kvíða og andi hans staðnar og rýrnar. Og deyr. Allt seinfærum stjórnmálamönnum að kenna. Lesandinn athugi það.

Ákvað nú að aka fram á gömlu Kambabrún. Stansaði smástund þar. Það var bjart og tært eins og augað eygði. Margskonar minningar komu upp. Væru efni í skemmtilega pistla. Ók því næst niður gömlu Kamba. Ekki þá elstu þó. Og inn í Hveragerði. Skrítinn bær. Engin ritföng að fá hvar sem leitað er. „Ekki síðan kaupfélagið fór,“ sagði innfæddur maður á miðjum aldri. Metnaðarlítill Bónus. Kom við í Eden. Sá þar tvö falleg blóm. Ákvað að taka þau með mér. Á mynd.

Þægileg ung kona seldi mér fiskmáltíð í matstofunni. Ósanngjarnt að til er fólk sem ekki á fyrir mat.

Næst lá leiðin niður Ölfus. Ekki farið þar um í tíu ár. Það var fróðlegt að sjá allar breytingarnar á leiðinni. Snéri við á vegamótunum til Þorlákshafnar og ók sömu leið til baka. Þá birtist annað sjónarhorn. Á undan mér ók svartur labrador rauðum bíl. Á tuttugu. Það hentaði mér vel.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.