Við fórum á ráðstefnu í gær

Við Ásta fórum á ráðstefnu hjá Glímunni í gær. Hún var haldin í sal ReykjavíkurAkademíunnar. Salurinn er í JL-húsinu, fjórðu hæð.

Það er lærdómsríkt að hlýða á menn – sem hafa í áratugi helgað líf sitt námi og fræðimennsku, kennslu og ritstörfum á æðri menntastigum – deila niðurstöðum rannsókna sinna til annarra. Svo var einnig í gær. Fróðlegt og ánægjulegt. Margt af því sem fram kom kveikti í gömlum glæðum svo að upp rifjuðust ýmsar heilagar hamingjustundir sem pistilshöfundur átti einn „afsíðis“ með textum og huldum leyndardómum ritninganna.

En efni ráðstefnunnar var yfirgripsmikið og ekki við að búast að tilheyrendur hafi náð að festa það allt í minni. Kosturinn, sem er mikill kostur, við þessar ráðstefnur Glímunnar er hinsvegar sá, að fyrirlestrarnir eru settir á netið, á svæði Kistunnar, þar sem Glíman hefur aðsetur. Síðan eru þeir gefnir út á bók. Þess má og geta að bókin í ár, sem er bók númer 3, er uppseld. Ég segi bókin, þótt fyrirbærið heiti: Glíman, óháð tímarit um guðfræði og samfélag.

Til fróðleiks birti ég hér dagskrá ráðstefnunnar:
_______________________________________

Næstkomandi laugardag, 14. október, verður haldin ráðstefna á vegum Glímunnar, þar sem tekist er á við spurninguna: „Hvað er trú?“

Ráðstefnan fer fram í ráðstefnusal ReykjavíkurAkademíunnar í JL-húsinu við Hringbraut, 4. hæð, og stendur frá kl. 11.00–16.00. Aðgangur er ókeypis.

Fyrirlesarar og dagskrá

Dr. Kristinn Ólason Gamla testamentisfræðingur:
Trú Abrahams.

Clarence Edvin Glad, PhD, Nýja testamentisfræðingur:
Trú og hefð í ritum Páls postula – Afbygging þjóðernis, stéttar og kyns.

Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, trúfræðingur:
Kristinn trúarskilningur.

Hlé. Kaffi og kleinur.

Sr. Sigurður Pálsson, guðfræðingur og stundakennari við HÍ og KHÍ:
Trúarsannfæring og umburðarlyndi.

Dr Haraldur Ólafsson, mannfræðingur:
,,Sálin er svo sem að láni.”

Ráðstefnustjóri: Gunnbjörg Óladóttir, MTh.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.