Kaffi og koníak

Menn líta lífið mismunandi augum. Fá þess vegna mismunandi áhrif af því sem fyrir augu þeirra ber. Í markaðsátaki hjá sláturfélagi einu var ákveðið að merkja sérvalið lambakjöt í glæsilegum umbúðum með stórum stöfum VSOP. Skyldi þetta vera úrvalskjöt, snyrt og kryddað og eftirsóknarvert í hvívetna. Menn lásu út úr skammstöfuninni á mismunandi vegu eins og gjarnan vill vera. Þeir kaldhæðnu lásu þar: „Very sour old pale.“ Sem er einkar óaðlaðandi lýsing á kjöti til manneldis.

En svo eru aðrir sem vita að skammstöfunin VSOP er gæðamerki á koníaki og umgangast þeir hana með djúpri virðingu: En þá útleggst hún sem: Very superior old pale. Og það var einmitt ein slík, gullinlituð og aðlaðandi sem vinkona mín gaf mér í tilefni tímamóta í fyrri viku. Camus. Hugsaði ég mér gott til glóðarinnar og tók veigina með mér upp í Borgarfjörð og hugðist deila henni með mágkonu minni og svila í Kalmanstungu.

Þetta var fremur huggulegur dagur. Tunglið var fullt og sigldi um heiðskíran himinn. Nokkur vindsstrengur af norðri, sem ekki telst nýlunda, eins og hún orðar það húsfreyjan á Sámsstöðum og raðar saman allmörgum lýsingarorðum til að tjá viðhorf sitt til norðannæðingsins. Við ókum svo frameftir sveitinni síðdegis, hjónakornin, treystandi á að smölun sláturfjár á bæjum væri afstaðin.

Þegar í Kalmanstungu kom var okkur tekið fagnandi og boðið til stofu enda verulega kært með þeim systrum. Húsbóndinn, Kalman, hafði komið sér fyrir í nýfönguðum rafmagnsknúnum heilsustól sem lyftir honum út og suður og fram og aftur og ýtir við honum þegar hann vill standa upp. Mikið snilldaráhald fyrir bakveika.

Við skenktum okkur síðan VSOP í lítil staup og Bryndís húsfreyja bar fram kaffi og allir sögðu skál fyrir þessum afmælisbörnum sem þarna komu saman. Við þriðju skálina tók fólk að tala og svo að hlægja við fót, eins og sagt var á yngri árum. Stemningin var elskuleg og allir lögðu til málanna. Það er verst að ekkert af því sem sagt var er hafandi eftir.

Nema kannski þetta um stjórnmálin, okkar menn, Davíð og Geir. Nefndum einnig Sollu og Steingrím og furðulega hamslausan málflutning þeirra. Aðeins var og drepið á þetta með sófann sem reynst hafði svo vel við kringumstæður munúðar. Svo og spurninguna um það hvort ærnar verða fimmtíu eða sjötíu sem settar verða á í vetur. En auðvitað hef ég ekkert af þessu eftir.

Tunglið óð í skýjum yfir jöklum þegar heim í Litlatré kom. Þetta var góður dagur.

3 svör við “Kaffi og koníak”

  1. Mikið er blái liturinn fallegur í ánni! Og síðasta myndin er að sínu leyti listaverk.

    Þá veit maður hvar fjörið er. 😉

  2. Bryndís, Bryndís, mon cher ami.
    Takk fyrir síðast. Það var svo ánægjuleg samvera.
    Mér finnst þú flott á myndinni og engin ástæða
    til að vera feimin.

    Kveðja til Kalmans

  3. Við Kalman þökkum yndislega stund í Kalmanstungu.
    Myndirnar eru stórfínar á nýju vélinni, þú hefðir þó mátt sleppa einni.
    Ástarþakkir og kveðjur til ykkar Ástu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.