Í fjötrum

Fyrst er fólk innritað í afgreiðslu frammi við dyr. Þar er biðröð. Síðan er því sagt að setjast í biðstofu sem er við hlið afgreiðslunnar. Það verði kallað upp. Flestir viðstaddra eru eldri borgarar. Sumir eru í fylgd barna sinna, fólks á miðjum aldri. Ein kona er í hjólastól. Hún virðist smávaxin, klædd kuldaúlpu og með skringilega húfu á höfðinu. Hún er samankipruð og beygir andlitið niður í kjöltuna. Andlit sem bendir til þess að hún sé í fjötrum Down´s heilkennis.

Liðsmaður hennar, kona, fylgir henni innar í biðstofuna. Biðstofan er allstór. Fólk situr dreift og er þögult. Feitlagin kona flettir tímariti. Aðrir litast um, líta undan ef þeir mæta augnaráði. Allt í einu emjar konan í hjólastólnum. Liðsmaðurinn hallar sér að henni og hvíslar einhverju. Hin róast í bili. Emjar aftur nokkru síðar. Ekur sér fram og aftur. Liðsmaðurinn reynir að sefa hana.

Eftir nokkra stund koma tvær konur í hvítum sloppum, óhnepptum og kalla upp, til skiptist, nöfn átta einstaklinga. Þeir átta rísa á fætur, liðsmaðurinn í stað þeirrar í hjólastólnum og ganga í átt til kvennanna. Þær sloppklæddu tala hvellum rómi. „Fylgið okkur í röð.“ Og fólkið með uppkölluðu nöfnunum fylgir þeim í röð. Undirgefnar sálir. Farið er eftir allöngum gangi. „Beygja hér,“ segja þær í sloppunum, „og svo hér til vinstri,“ bæta þær við og komið er inn í litla biðstofu innarlega á ganginum. Á dyrunum stendur: Hjartalínurit.

„Setjist nú öll, setjist nú öll hér, hvert á sinn stól, hvert á sinn stól og bíðið. Við köllum á ykkur.“ Inni af biðstofunni eru skoðunarbekkir skermaðir af. Sálirnar setjast. Í útvarpi glymur þungarokk. Einn nærstaddra segir: „Ætli þessari tónlist sé ætlað að hækka í okkur blóðþrýstinginn?“ Eftir stundarkorn svarar aldraður maður með góðlegan svip: „Þetta er nú ekki verra en Sylvía Nótt.“ „Nei. Það er rétt. Það er sko hárrétt. Skillurru,“ segir sá fyrri. Aðrir brosa innhverfu brosi.

Liðsmaðurinn stendur við hlið konunnar í hjólastólnum sem tekur nú að ókyrrast. Hún ekur sér og rær fram í gráðið. Svo emjar hún. „Ég get þetta ekki. Ég get þetta ekki. Huh, huh, huh,“ virðist hún segja og fálmar niður í hjól stólsins. Það gætir angistar í tóninum. Hún hækkar röddina og endurtekur: „Ég get þetta ekki. Ég get þetta ekki. Ég vil þetta ekki, huh, huh, huh.“ Liðsmaðurinn leggur hönd á öxl hennar, beygir sig niður og horfir framan í hana, talar hughreystingarorð og leggur lófa að vanga hennar.

Þegar sú í hjólastólnum er kölluð inn kveinar hún stöðugt. Farið er með hana inn í afskermað rými. Þar er hneppt frá brjósti hennar og settar á hana tengingar svo og úlnliði og ökkla. Hún grætur stöðugt: „Ég get þetta ekki. Ég vil þetta ekki,“ og kreistir saman augun. Mælingin tekur skamma stund. Ekkahljóð berast frá konunni.

Næst er henni ekið að dyrum viðtalsstofu læknisins sem mun skoða hana. Þar er einnig bið. Konan rær fram í gráðið og umlar. Hálf innibyrgður grátur hennar snertir viðstadda. Loks er komið að henni og liðsmaðurinn ekur henni inn herbergi læknisins. Dyrnar lokast á eftir þeim. Daufur ómur af harmakveini konunnar berst gegnum vegginn fram á ganginn. „Ég get þetta ekki, huh, huh, huh. Huh, huh, huh.“ Sársaukatónninn fylgir viðstöddum heim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.