Gleðin í brjóstinu

Sennilega hrakar mönnum á mínum aldri hraðar en þeir átta sig á sjálfir. Á ég þá við hæfni heilans og jaðarstöðva hans. Upplifi ég þessa tilfinningu stöku sinnum við lestur nýrra bóka. Núna tengist tilfinningin degi bókarinnar í ár og þúsund kallinum sem Félag íslenskra bókaútgefenda sendi í heimili. Freistaðist nefnilega til að kaupa bækur umfram þá sem mig langaði í.

Mig hafði nefnilega langað að skoða Bátinn langa og fleiri ljóð eftir Stanley Kunitz og fór því á stúfana til að kaupa hana. sjá hér Hef nú haft hana við höndina í nærri tvo mánuði. Finn helst fyrir því að verða ekki dús við hana nema ég fái að lesa ljóðin á frummálinu og beri þau saman við þýðinguna. Finn í þýðingunni orðasambönd sem ég efast um. Finnst ég verði að sjá þau á tungumáli höfundarins. Það gæti skorið úr ýmsum vafa.

Í ferð minni í vor, til að eignast kverið um Bátinn langa, glaptist ég til að kaupa tvær bækur til að fylla upp í kvöðina sem lögð var á með gjöfinni. Önnur þeirra bóka heitir einfaldlega Steinsteypa og hvernig sem ég legg mig fram finnst mér einmitt að nafnið á henni passi henni dásamlega. Hin bókin er Barndómur. Hún fékk þýðingarverðlaunin í ár og er greinilega vel að þeim komin. Málið á þýðingunni er gott, lipurt og fljótandi og las ég hana málsins vegna að tveim þriðju. Tók þá hvíld.

Í þriðja lagi, hvað varðar þetta með að hraka hraðar en maður áttar sig á sjálfur, þá hef ég gert nokkrar tilraunir til að lesa Flugdrekahlauparann sem allmikið var látið með yfir jól, þorra og góu og margir rómuðu fyrir snilld og fyrir þetta og hitt eins og gert er við bækur sem ná til fólks. En mér hefur ekki tekist að tengjast henni. Þykir það verulega miður því fullt af færu fólki, sem ég tek mark á, hefur lofað bókina.

Til að rannsaka sjálfan mig tók ég Singer gamla fram í gær og sökkti mér niður í frásöguna af Jasia Mazúr og Ester, apanum Joktan og Mjónu og Gránu eða Ryki og Ösku og Emelíu sem laðaðist að biluðum mönnum. Og brjóst mitt fylltist af gleði.

Eitt andsvar við „Gleðin í brjóstinu“

  1. Í þessum efnum skiptir engu hvað fólki finnst en öllu hvað hjartað syngur. Endurtekningin er merkisberi í listunum og það væri synd að missa af skilaboðum hennar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.