Helgi og Hannes – Sjóðurinn

Það er bekkur á gangstéttinni fyrir framan Ávaxtabúðina. Hannes situr á bekknum en Helgi stendur við hlið hans. Hann styður sig við reiðhjól. Það er kalt úti og báðir mennirnir klæddir þykkum yfirhöfnum. Þeir ræða málin.

Helgi: Það lítur ekki vel út í Kauphöllinni.
Hannes: Kauphöllinni! Er eitthvað nýtt þar?
Helgi: Það lítur ekki vel út.
Hannes: Hvað lítur ekki vel út?
Helgi: Þetta með vísitöluna.
Hannes: Vísitöluna?
Helgi: Já. Gengisvísitöluna.
Hannes: Já, hana.
Helgi: Gengið hrynur.
Hannes: Það er ekki á mínu sviði.
Helgi: Sjóðirnir minnka.
Hannes: Sjóðir? Áttu sjóð?
Helgi: Ég fékk í hitteðfyrra bréf þar sem sagt var að ég ætti tíu krónur í einhverjum sjóði.
Hannes: Tíu krónur?
Helgi: Já. Tíu krónur.
Hannes: Tíu krónur skipta nú varla miklu máli.
Helgi: Á genginu hundrað.
Hannes: Hundrað?
Helgi: Já. Hundrað. Það hafði svo hækkað upp í þúsund.
Hannes: Þúsund?
Helgi: Já. gengið. Tíkallinn varð að þúsund krónum.
Hannes: Er það ekki gott?
Helgi: Nú er hundrað kallinn kominn niður í fimmtíu krónur.
Hannes: Það lítur ekki vel út. Eða hvað?
Helgi: Gæti farið niður fyrir tíu krónur.

Þögn dágóða stund. Þeir fylgjast með bílaumferðinni.

Hannes: Og kannski niður fyrir núll krónur?
Helgi: Það er hugsanlegt.
Hannes: Og þá ertu kominn í skuld.
Helgi: Það er til í því.

Aftur varð þögn dágóða stund.

Hannes: Ég sé að þú ert kominn með reiðhjól.
Helgi: Já.
Hannes: Ætlarðu að stunda hjólreiðar?
Helgi: Nei. Ég teymi það bara.

3 svör við “Helgi og Hannes – Sjóðurinn”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.