Helgi og Hannes – Í apótekinu

Einþáttungur.
Tveir eldri borgarar spjalla saman.
Þeir halla sér utan í fólksbíl á bílastæði við verslunarkjarna.

Helgi: Ég fór í apótekið í gær.
Hannes: Hvað varstu að gera í apótek?
Helgi: Ég ætlaði að kaupa mér magnyl.
Hannes: Kaupa magnyl?
Helgi: Já. Kaupa magnyl.
Hannes: Varstu með hausverk?
Helgi: Nei. Ég vil bara eiga magnyl. Til vara. Þú veist.
Hannes: Já. Og fékkstu magnyl?
Helgi: Nei. Ég fékk ekki magnyl.
Hannes: Nú. Hvað olli því?

Helgi: Ég kom þarna inn. Í apótekið. Þetta er lítið apótek. Og stóð skammt frá afgreiðsluborðinu og beið eftir afgreiðslu.
Hannes: Já. Eins og gengur.
Helgi: Já. Eins og gengur.
Hannes: Og hvað svo?
Helgi: Ég beið.
Hannes: Var engin að afgreiða?
Helgi: Það var ein kona í slopp fyrir innan. Hún sat við tölvu. Svo var önnur fyrir framan, út við dyr. Hún var að sýna viðskiptavini, stórri feitri konu, varaliti.

Hannes: Þurftir þú að bíða lengi.
Helgi: Já. Þessi sem var fyrir framan hafði brett upp ermina á hvíta sloppnum sem hún var í og málað rendur á handlegginn, strik eftir strik, upp fyrir olnboga, með varalitum.
Hannes: Af hverju gerði hún það?
Helgi: Hún var að sýna viðskiptavininum sýnishorn.
Hannes: Sýnishorn?
Helgi: Já. Sýnishorn. Tíu eða tuttugu rendur frá úlnlið og upp fyrir olnboga.
Hannes: Svakalega margar rendur.
Helgi: Já. Svakalega margar rendur. Og þær krunkuðu sig ofan í rendurnar. Niðursokknar.

Hannes: Og fékkst þú enga afgreiðslu?
Helgi: Þegar ég var búinn að bíða í tíu mínútur spurði ég þessa sem var við tölvuna hvort hún væri ein við afgreiðslu.
Hannes: Og hvað sagði hún?
Helgi: Hún kallaði, án þess að snúa sér frá tölvunni, og sagði: „ Það er önnur frammi.“
Hannes: Og hvað sagðir þú?
Helgi: Ég hváði, er önnur frammi,?“ og leit fram að dyrunum. Þá hafði strikunum á handleggnum á hinni fjölgað enn meira og hún hélt á fimm eða sex varalitum. Opnum.

Hannes: Hvað gerðir þú þá?
Helgi: Ég var orðinn dálítið súr. Allt í einu kom bíll að apótekinu og konan, það er viðskiptavinurinn sem hafði verið að skoða varalitina, fór út og inn í bílinn sem ók burt.
Hannes: Án þess að kaupa nokkuð.?
Helgi: Já. Án þess að kaupa nokkuð.
Hannes: Sérkennilegt. Og hvað svo?
Helgi: Sú með ermina uppi í handarkrika og tuttugu sýnishornastrik á handleggnum kom til mín og spurði: „Hvað get ég gert fyrir þig?“
Hannes: Og fékkstu þá magnylið?
Helgi: Nei. Ég fékk ekkert magnyl.
Hannes: Af hverju ekki?
Helgi: Ég horfði framan í konuna nokkur augnablik. Sagði ekkert. Fór svo bara út.
Hannes: Og ekkert magnyl?
Helgi: Nei. Ekkert magnyl.
Hannes: Jæja.
Helgi: Já.
Hannes: Þetta var aldrei svona.
Helgi: Nei. Aldrei.

Þeir bretta upp kragana á yfirhöfnum sínum og ganga hver
sína leið. Það er súld.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.