Er vitað hverjir stjórna landinu?

Mikill lúðrablástur og hávaði hefur dunið á þjóðinni undanfarnar vikur um hrun efnahagslífsins á Íslandi. Allskyns fólk í allskyns stofnunum, fólk sem skreytir sig með margföldum háskólagráðum í sértækri þekkingu á hagfræði og þróun peningamála, hefur tjáð sig um að hræðileg endalok góðæris séu að hvolfast yfir þjóðina og því kominn tími fyrir almúgafólk að biðja fyrir sér og afkomu sinni.

Það er við hvininn í slíkum básúnum sem við „litlu mennirnir“ byrjum að stífna og finna fyrir vöðvunum í hálsi og herðum. Möguleikar okkar eru ekki miklir. Við heyrum af hæsta verði á matvöru á Íslandi. Við heyrum af hæsta bankakostnaði, vöxtum og þjónustu, á Íslandi. Við heyrum af hæsta lyfjaverði á Íslandi. Miðað við nágrannaþjóðirnar. Og loks heyrum við af lægstu láglaunum á Íslandi. Og smánarlegum greiðslum til eldri borgara og öryrkja.

Nýjustu fregnir herma að Seðlabankinn ætli að reyna að lækna eitthvað sem kallað er verðbólguskot. Orð sem hljómar eins og skita en er í rauninni fínna orð yfir niðurgang. En hvað ræður Seðlabankinn miklu? Eða stjórnmálamennirnir? Það blasir ekki við að þeir ráði lengur því sem máli skiptir. Fram hafa komið menn og „moneygroup“ sem sýnast hafa meira vald en stjórnmálamenn og þeir munu, án nokkurs vafa, snúa bökum saman og tryggja sig og sína og virkja niðurganginn til aukinnar arðsemi fyrir „groupin“.

Sagði maðurinn á götunni það ekki um daginn? Bankarnir myndu leysa til sín íbúðir þeirra sem ekki réðu við hækkanir á afborgunum lána, og síðan leigja þeim þær. Á sama hátt og ríkir kaupa bújarðir og ráða bændurna sem húskarla sína.

Þegar maður heyrir svör ráðamanna, í hinum ýmsu fjölmiðlum, gerist sú spurning áleitin, hvort einhverjir þeirra skilgreini sjálfa sig, í raun, sem stjórnmálamenn allra Íslendinga. Er það ekki íhugunarefni?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.