…en ég ræð ekki við mig

Það lá ekki ljóst fyrir í morgun, árla
hvaða stefnu sálin tæki fyrir daginn
þurfti að hinkra til átta
þá gaf hún stefnuna upp
sagði: ljóð, lágum rómi
setti dagblöðin til hliðar, ólesin
er rykfrír fyrir bragðið.

gekk þvínæst að hillum
skimaði, beið þess að sálin
sem dvelur bak við augun
staldraði við nafn eða höfund
tæki ákvörðun
ég knúði mig til hlutleysis
hún gaf sér góðan tíma

þarna eru ýmsir, mér leiddist biðin
lyfti loks hendi, þá sussaði sálin
uss uss hvíslaði hún
hægan hægan
höndin roðnaði og seig
loksins hætti leitin, nam staðar
við þessa örþunnu bók með aðeins
átta millimetra kjöl

Dúínó – tregaljóðin
Rilke Rilke Rilke

nú er liðið á þögulan daginn
orðin óma og hljóma inni
í óstaðsettu rými hugans
halda mér föngnum, knýja

þetta las ég í formála
orð eftir Kappus:
„Þegar mikill og einstakur maður hefur orðið,
ættu hinir smærri að þegja.“

en ég ræð ekki við mig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.