Kröpp hægri beygja eða Laufið á sálinni II

Við tókum sunnudaginn snemma. Um hálfsjöleytið fór ég út á pall til að vígja morguninn. Tók þá eftir stráum og hálmi á mottunni utan við dyrnar. Hvað er nú þetta, hugsaði ég, minnugur þess að Ásta lætur aldrei korn eða kusk sjást nein staðar á umráðasvæði sínu, og ég stansaði við. Beið eftir því að heilinn kæmi með tillögu um átæðu. Einmitt. Við höfðum fest rekaviðarskúlptúr ofan við útidyrnar og Þrastaparinu litist vel á staðinn til að fjölga í stofninum.

Rekaviðarskúlptúrinn er eftir listakonu austur í Mýrdal. Evu Dögg. Gunný hafði gefið okkur hann þegar hún hafði setið um skeið hjá gamalli móður vinafólks síðustu dægur hennar hér megin grafar. Skúlptúrinn hefur fylgt okkur æ síðan. Nú ákváðum við að úða sílikóni yfir listaverkið, en það geymir margar dularfullar andlitsmyndir, og koma því fyrir á virðulegum stað. Festum við það upp undir skyggninu sem er yfir pallinum og yfir útidyrunum. Þrösturinn er smekkfugl.

Mér leist ekki mjög vel á hreiðurstað fuglanna. Sagði því: „Hann á eftir að skíta á okkur, ungarnir eiga eftir að skíta á okkur. Fiðrið og hismið eiga eftir að lenda ofan í diskunum okkar þegar gott er úti og svo gætu ungaræflarnir dottið ofan í opið grillið þegar þeir reyna að fljúga. Á ég ekki að stoppa þá af?“ „Sjáum til,“ sagði Ásta, „kannski gefast þeir upp á okkur.“ Svo bætti hún við í hlýjum tóni: „Þeir búa nú í sama húsi og við.“

Við klæddumst gönguskóm og fórum í langþráða göngu um níuleytið. Fórum niður að Hvítá nokkurn veginn á móts við Sámsstaði og gengum upp með ánni. Markmiðið var að skrá á bók alla fugla sem við höfum séð á svæðinu. Í ferðinni bættust tvö straumandarpör í hópinn. Þá voru tegundirnar orðnar tuttugu og tvær. Það er sorglega fátæklegt þegar litið er til þess að fuglategundir sem sést hafa á Íslandi til ársloka 1998 eru um 345, samkvæmt Fuglavísi Jóhanns Óla Hilmarssonar.

Eftir hádegið veltum við okkur fáklædd á pallinum. Hitinn þar komst í 24°C á miðjum degi. Í forsælu náði hann 17°C. Það mátti sjá laufið skríða fram á litlu hríslunum okkar. Og finna það vaxa í smávöxnum sálartetrunum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.