Kröpp hægri beygja eða Laufið á sálinni

Föstudagurinn fimmti var ósköp venjulegur framan af. Við áttum stefnumót eftir vinnu. Hún sótti mig heim. Við ætluðum saman í Bónus í Smáranum. Ég settist inn í bílinn hjá henni. Hún ók af stað. Eftir fimmtán metra tók hún krappa hægri beygju og ók inn í bílskýlið. Ég greip í handfang á hurðinni. „Við förum í sveitina,“ sagði Ásta.

Svo skiptum við um bíl. Komum við í Bónus í Borgarnesi. Ókum síðan sem leið liggur. Tilveran lofaði góðu. Og stóð við það. Að venju gengum við umhverfis kofann okkar og heilsuðum hríslum og sprotum. Öspin hefur tekið við sér og birkið er að lifna. Þetta eru litlir reitir. Einn köllum við Tangaskóg. Það er fyndið. Svo er Barðið og Barnaskógur. Hann er þannig til kominn að ég bauð börnum okkar að styrkja okkur til plöntukaupa.

Allt í einu heyrði ég Ástu hrópa: „Hún er komin, hún er komin, afi, hún er komin.“ Ég var staddur dálítið fjær. Vissi ekki hvað gekk á. „Erlan, afi, maríuerlan, hún er komin. Elsku fuglinn. Kominn alla leið. Aftur og enn.“ Ásta hoppaði af gleði og svei mér þá ef hún hljóp ekki eftir pallinum eins og hún ætlaði að taka flugið með maríuerlunni. En brautin var ekki nógu löng!

Helgin var öll í þessum anda. Veðrið einmuna og umhverfið umfaðmandi. Fuglar í hverri þúfu. Þeir flugu hátt upp í loft og léku kúnstir og stungu sér aftur niður í móana. Nú voru þeir allir mættir. Gaukurinn spilaði á stélfjaðrirnar. Og þeir sungu fyrir okkur og við sungum fyrir þá. Undir kvöld settum við Fridu á fóninn og fundum hvernig sálir okkar laufguðust. Ég meina það. Þær laufguðust. Og við nefndum það við Guð. Í þakklæti.

Svo tókum við að skipuleggja. Þetta hér og þetta þar og þetta hér og þar. Gallinn við slíkar stundir er sá að maður skipuleggur eins hlutirnir kosti ekkert og talar um allt sem mann langar að gera. En, og það hefur ríkisstjórninni ekki tekist, svo beitum við skynseminni og skerum niður. Drögum úr áætlunum og endum með því að láta auraráðin stjórna.

Sunnudagurinn varð yfirfljótandi. Við fórum á fætur hálf sjö…(frh).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.