Rogastans

Merkilegt orð rogastans. Mig rak í eitt slíkt fyrr í dag. Er ekki enn búinn að ná mér að fullu eftir höggið. Þetta hendir mig gjarnan þegar ég álpast til að sökkva mér í fræðibækur sem ekki eru hannaðar fyrir venjulegt fólk. Fræðimenn virðast fæstir hafa hæfileika til að búa efni sitt í aðgengilegt form fyrir slíka. Eða þá að þeir miða efnistökin við aðra fræðimenn einvörðungu.

Ég sit því uppi með höfuðverk eftir rogastans dagsins. Veit af reynslu að ein magnyl nægir sjaldnast til að slá á verkinn. Tek stundum tvær í viðbót, minnugur orða tannlæknis sem hjálpaði mér fyrir fjörutíu árum, þá var tannpína hreint alveg að drepa mig, og hann sagði að fólk mundi þola allt upp í sjö magnyl á sólarhring. Hann flutti svo norður í land. Ég saknaði hans því hann var svo derringslaus. En það er önnur saga.

Nú hafa safnast á borðin hjá mér allskyns bókmennta- og texta- og málvísindamenn. Þetta þróast þannig að fyrst vel ég eina bók úr hillunum sem mig langar að endurlesa kafla úr. Þá kemur fljótt að því að höfundurinn vitnar í annan fræðimann máli sínu til stuðnings. Það verður til þess að ég dreg bók þess höfundar fram og leita að málsgreininni sem vísað er til. Í þeirri málsgrein miðri er kannski enn ein tilvitnun og hún í annan höfund og þá finnst mér ótækt annað en að sækja bók þess í hillurnar.

Þessi lota hófst með Dagnýju Kristjánsdóttur. Ég hef verið svo skotin í henni og Undirstraumum hennar, (athyglisvert orð undirstraumar). Ásta hringdi svo óvart í mig á miðjum degi. Hafði valið rangt númer. „Ég er með Dagnýju,“ sagði ég. „Nú já, ertu með henni í dag?“ „Já, Kristjánsdóttur, þú veist.“ „Já ég veit,“ svaraði Ásta og tók að hlægja þessi býsn. Furðulegt alltaf þegar Ásta tekur að skelli hlægja að mér. Svo kvöddumst við.

Á borðunum mínum eru því ýmsir bráðgáfaðir menn þessa daga, menn sem ég nenni ekki að snobba með og nefna nöfnin þeirra. En það er alveg augljóst mál að Dagnýju tekst ævinlega að koma mér í dálítinn vanda. Það er af því að hún er, að mínu takmarkaða viti, eldklár manneskja og það er alltaf ögrun að finna slíkan kvenmann og verða að sætta sig við himinninn og hafið sem aðskilja.

Annan pistil á öðrum góðum degi verð ég að skrifa til að ljúka glímunni við orsök rogastansins. Þangað til áætla ég tvær magnyl tvisvar á dag með mat.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.