Minning

Tveir menn kveðjast að kvöldi. Annar er látinn morguninn eftir. Óvænt. Það er alltaf jafn kaldranalegt og erfitt, og snúið að laga atburðinn að þeirri heimsmynd með vinum og kunningjum sem maður hefur lifað með og í. Um árabil. Langt árabil. Og þótt manni takist að ræða það og iðka daglegt líferni, þá kemur alltaf mynd í hugann, skáhallt aftan frá eins og blossi sem segir: Hann er látinn. Dáinn. Alfarinn. Og tómleiki og söknuður breiða úr sér innan í manni.

Breytni hans gagnvart börnum sínum var heillandi. Hann var þeim bæði faðir og móðir. Í mörg ár. Helgaði sig þeim og gaf þeim allt sem hann var og átti. Það var svo fallegt. Hann hélt heimili með hópnum, einstæður faðir með fjögur börn og útivinnandi. Studdi þau eitt og hvert við lífstilraunir sínar og leiðbeindi þeim eftir getu. Ef þeim mistókst, hughreysti hann þau og þegar þeim tókst þá gladdist hann með þeim og yfir þeim. Hann annaðist húshaldið, matseld, þvotta og þrif og vann úti. Einstæður útivinnandi faðir með fjögur börn.

Æðrulaus tók hann á móti tilbrigðum tilverunnar. Og þegar erfiðast gekk fékk hann Jesúm Krist í lið með sér. Þeim samdi vel og saman tókust þeir á við andöflin. Í raun var hann sigurvegari. Hetja. Þrátt fyrir allt. Og á honum sannaðist orð Goethes: „Fyrst þegar að þrengir kemur meistarinn í ljós.“

Jón Sævar varð bráðkvaddur á vakt í Gistiskýlinu í Þingholtsstræti 25, aðfararnótt 1.september. Blessuð sé minning hans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.