Útskriftarhátíð

Það var sannkallaður hátíðisdagur hjá yfir fimm hundruð nemendum Kennaraháskóla Íslands og fjölskyldum þeirra, þegar brautskráning frá skólanum fór fram í Haukahúsinu í Hafnarfirði í gær. Mikill mannfjöldi var þar samankominn og salurinn í þessu risastóra húsi þéttsetinn. Eftir setningu hátíðarinnar söng Diddú tvö lög af sinni alkunnu snilld. Síðan flutti rektor skólans, Ólafur Proppé, ávarp.

Rektorinn ræddi ýmis mál kennarastéttarinnar og meðal annars hið langa verkfall þeirra á liðnum vetri. Kom margt athyglisvert fram í máli hans sem vakti til umhugsunar eins og til dæmis ríkidæmi Íslendinga og láglaunastefnu. En það er önnur saga. Eftir ávarp rektors tók Guðmundur K. Birgisson, deildarforseti, til við afhendingu prófskírteina.

Ágúst og fjölskylda

Meðal nemenda sem útskrifuðust með B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði, svo ég styðjist við dagskrárblað hátíðarinnar, var Ágúst Ólason. Eftir af hafa starfað með foreldrum sínum í Samhjálp hvítasunnumanna um langt árabil söðlaði hann um og hóf nám við Kennaraháskólann og lauk prófi þaðan í vor. Fjölskylda hans og vinir voru viðstaddir útskriftina og samfögnuðu honum.

Óli, Ágúst og Ásta

Ágúst hefur verið ráðinn kennari við nýjan grunnskóla í Norðlingaholti sem tekur til starfa í haust. Er undirbúningsvinna þegar hafin. Þá hefur hann skráð sig til framhaldsnáms við Kennaraháskólann næstu tvö ár. Fylgja Ágústi og fjölskyldu hans, hjartanlegar hamingjuóskir með glæsilegan áfanga og bestu óskir um farsæld á nýjum starfsvettvangi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.