Án orða

Morgnar eru misjafnir í sál manns og huga. Stundum er þar jafnvægi, stundum óeirðir. Einnig finnast morgnar sem einkennast af kvíða. Og svo eru það þessir þægilegu, þegar mönnum líkar vel við flesta hluti. Orsök blæbrigðanna er umhugsunarefni. Og menn skima eftir skýringu. Hvort hún er í þeim sjálfum eða komi utan að. En er ekki allt innra með þeim sjálfum? Þegar grannt er skoðað. Eins og maðurinn sagði um Guðsríkið.

Eða er það eins og hljóðfæri? Til að hljómur heyrist þarf að strjúka strengi þess. Hvað fiðluna varðar þá þarf þrennt til. Hljóðfæri, boga og listamann. Svar fiðlunnar við snertingu bogans fer eftir hugsun þess sem honum veldur. Hvers hann leitar. Og hugurinn spyr, sig sjálfan, hvers hann leitar. Og áfram, hvort hann leitar. Og þá er kominn tími til að staldra við.

Til er frásaga af manni sem fjölgaði strengjum í hljóðfæri sínu til að ná dýpri tóni. Hugur hans þarfnaðist dýpri tóns. Til samsvörunar við reynslu. Hljóðfærasmiðir höfðu ekki sömu reynslu. Og þegar maðurinn strauk boganum yfir strengina, svaraði hljóðfærið þörf huga hans fyrir samhljóm sem var dýpri en aðrir þekktu. Og hann grét. Af kennd sem ekki er hægt að lýsa með orðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.