Við horngluggann

Eins og flesta morgna, upp úr klukkan sex, settumst við Ásta mín við horngluggann með kaffið okkar í morgun. Áður höfðum við kveikt á útvarpinu, rás eitt. Tónlistin sem þeir velja fyrsta klukkutímann í þættinum Árla dags, virðist ekki vera valin til þess að kalla fólk út í lífið. Stundum dettur manni í hug, bókstaflega, að einhver nákominn þáttastjórnendum sé nýlega dáinn og útförin verði seinna um daginn.

En hvað um það. Þarna við horngluggann ræðum um veðrið, höfum þá gáð í tölvuna hvernig veðrið er í Borgarfirðinum, og býsnumst yfir því hvað mikið gróðurinn vanti regn. Á öðrum bolla kaffisins tek ég svo fram Árbók bókmenntanna og les um og eftir skáld dagsins. Allnokkur hópur manna á daginn í dag, þriðja júní. Og við ræðum orð þeirra.

En þar sem við stefnum í Borgarfjörðinn eftir vinnu, þá litum við einnig á menn morgundagsins, í bókinni, en þar eru nefnd til sögunnar María Jóhannsdóttir f. 1886 og Gunnar Dal f. 1924.

Stef Gunnars, sem birt er, er úr Lögbrjótum. Þar segir:

Tvær tegundir
af lögbrjótum
hér leynast, kæri vin.

Þeir sem eru
sekir fundnir,
og svo við hin.

Þetta er lipurlega orðað og hagleikinn gleður og kveikir löngun til að gera tilbrigði við stefið. Tek ég mér bessaleyfi og læt fylgja tvo möguleika:

Tvær tegundir
af lögbrjótum
hér leynast, kæri vin.

Þeir sem eru
saklausir
og svo við hin.

Hinir trúarlega réttlátu mundu væntanlega orða þetta svona:

Tvær tegundir
af mannfólki
hér finnast, kæri vin.

Við sem erum
syndlausir
og svo þið hin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.