Lóðrétt eða lárétt

Þættir Ævars Kjartanssonar, á sunnudagsmorgnum í vetur, hafa yfirleitt verið áhugaverðir og á hann hrós skilið fyrir þá. Hann hefur kallað til sín viðmælendur ýmissa gerða þótt guðfræðingar hafi verið í meirihluta. Flesta þessa þætti hef ég hlustað á og haft verulega ánægju af sumum þeirra. Í gærmorgun var síðasti þátturinn um sinn og viðmælandi Ævars var Njörður P. Njarðvík, prófessor, bókmenntafræðingur og skáld.

Viðhorf Njarðar í trúmálum eru nokkuð óhefðbundin og sérstök og fékk ég á tilfinninguna að hugsun hans væri stödd í blindgötu. Auðvitað er varhugavert fyrir óbreyttan að tjá sig um skoðanir hámenntaðs háskólamanns, manns sem vegna gáfna sinna, langskólamenntunar og persónulegs áhuga á trúarlegum sannleika, sér hlutina frá öðrum sjónarhornum en venjulegur einfeldningur. Og ekki við öðru að búast. En það er nú samt sem áður þannig, stundum, að skýin vilja safnast á fjallatoppana og byrgja mönnum sýn niður í dalina og út yfir engin.

Eftir að áðurnefndum útvarpsþætti lauk þurfti ég nokkurn tíma til að skerpa á mínum eigin viðhorfum. Komst að þeirri niðurstöðu, í eitt skiptið enn, að atriði eins og fæðingardagur og ár Jesú Krists hafa ekki mikið gildi fyrir mig. Ekki heldur hvort hann hét Jón eða Jósúa. Og þá er það heldur ekki lykilmál hvort hann var Jósefsson eða eitthvað annað. En í orðum hans og gjörðum er allt hans gildi.

Einhvern tíma komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega mundi trú mín kallast Jesútrú. Það er að ég trúi á Jesúm frá Nasaret. Hvort sú trú flokkist þá ekki undir blindgötu? Nei. Hún gerir það ekki. Enda um mörg hýbýli að velja, þótt það sem ég frekast aðhyllist hafi enga kennitölu. Trúarrit mitt er fyrst og fremst Jóhannesarguðspjall. Í því má finna marga þeirra leyndardóma sem vísa mönnum veg til þess sannleika sem gerir þá frjálsa. Tómasarguðspjall breytir þar engu um.

Andi Guðs, hreyfingin sem sveif yfir vötnunum í upphafi, er sá andi sem sendi Jesúm Krist. Án efa er það sami andinn og sendi marga hinna miklu andlegu leiðtoga til mannanna. Einkenni þeirra var að þeir voru ávalt knúðir af kærleikanum. Elsku til manna. Guði. Því Guð er jú kærleikur. Hreyfing. Sístarfandi elska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.