Batavegur þrjú

Í bókinni Málsvörn og minningar segir höfundur á bls. 30, og er þá að tala um Ljóðaljóðin:„Nei, þetta er kynósa ástarkvæði og kemur guði og Ísrael lítið við, nema hvað sköpunin öll er auðvitað af guðlegum toga og ástir karls og konu eitt af undrum hennar:“ Það var þarna sem ég stansaði við og lagði frá mér bókina í bili. Las síðan setninguna aftur og aftur og enn einu sinni. Fann í hjarta mínu stíga gleði yfir því að eiga bækur og persónulega trúarreynslu sem sjá Ljóðaljóðin í allt öðru ljósi.

Þegar Nikódemus kom til Jesú nóttina góðu, benti Kristur honum á að tilverusviðin eða ríkin eru tvö og „að enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.“ Nikódemus þekkti ekki þessa hugsun og brást undrandi við. „Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“ Skilningur hans á fæðingu var aðeins einn, þ.e. af ávöxtum kynmaka karls og konu.

En Jesús Kristur, maður af ríki Guðs, var að upplýsa Nikódemus um önnur svið tilverunnar: „Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist er andi….“ Þá spurði Nikódemus: „Hvernig má þetta verða?“ Síðar í samtalinu segir Kristur: „Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður um jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, þegar ég ræði við yður um hin himnesku?“

„Látið hann kyssa mig með kossum munns síns…” Þannig hefst tal brúðarinnar í Ljóðaljóðunum. Eins og móðir kyssir barnið sem þarfnast huggunar. Hún kyssir á meiðslin með snertingu varanna og með orðum þeirra. Látið hann koma sjálfan og kyssa mig, í stað þess að senda aðra. Leyfið mér að heyra orðin af hans eigin vörum. „Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem gengu af munni hans…“ (Lk. 4:22).

„Því að elska þín er betri en vín,“ segir brúðurin næst. Elska þín, elska þín, er betri en vín. „…en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1 Kor. 13). Þeirra er elskan mest, elskan sem veitir meiri og dýpri gleði en vínið. Koss varanna, orð varanna, orð elskunnar sem ilma eins og smyrsl og nafn þitt sem mýkir eins og olía og viðheldur ljósinu á lömpum meyjanna. „Látið hann kyssa mig með kossum munns síns.“ Kyssi mig þúsund kossum svo að sár mín grói, svo að sál mín huggist og finni hvíld um hádegið.

Í íslenskum þýðingum hefir verið valin sú leið að nota orðið Drottinn í stað hinna mismunandi nafna sem Guð ber í frumtextum. Þótt sú leið einfaldi hlutina þægilega þá rýrir hún þá einnig. Eitt dæmi: „Þegar Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Yahweh honum og sagði: „Ég er El Shaddai…““(Gen. 17; Jerusalem Bible). Í orðsifjafræðilegri merkingu táknar El, hinn sterka, og hið afmarkaða orð Shaddai er mótað af hebreska orðinu shad, brjóstið, sem haft er yfir konubrjóst og víða nefnt, t.d. í Ljóðaljóðunum.

El Shaddai getur því þýtt því sem næst, „Guð með brjóstin,“ af því að hann nærir, styrkir og fullnægir sínu trúaða fólki með því að útdeila sjálfum sér til þeirra, (sbr. Jes. 58:10) og einnig eins og móðir hallar barni að brjóstum sér til að fæða það og sefa. Ýmsum er eftirsjá í því að ákveðið var að þýða Shaddai sem „hinn almáttugi,“ (en það gerðu Grikkir fyrstir undir áhrifum heimspekinnar,) og finnst, þótt „hinn almáttugi“ spanni hugsanlega allt sviðið þá dragi Shaddai fram nákvæmari merkingu af vilja og markmiði Guðs í himninum.

Ég lýk nú þessum fátækilegu leikmanns vangaveltum mínum um aðra hlið Ljóðaljóðanna. Þau hafa verið mér dýrmæt og háheilög lesning um langt árabil, þrátt fyrir að Guð er ekki nefndur í þeim og Nýja testamentið skírskoti aldrei til þeirra. Í hebresku biblíunni eru Ljóðaljóðin fremst þeirra fimm bókrolla sem lesin eru á hinum miklu trúarhátíðum Gyðinga og eru lesin á páskahátíðinni.

Eitt andsvar við „Batavegur þrjú“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.