Davíð Stefánsson

Afskaplega feiminn kom ég inn í bókabúð, svona venjulegur unglingur liðlega fermdur, og keypti mér ljóðabók eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Ég hef alltaf nefnt nafnið hans með lotningu og fundist Fagriskógur vera hluti af því. Á heimili foreldra minna, sem var sárafátækt verkamannaheimili, var lítið um bækur og varla nokkra ljóðabók að finna. Það varð því nokkurt uppþot þegar ég kom með bókina og fólk spurði hvort ég ætlaði að verða skáld.

Mörg af ljóðum Davíðs kunni mamma mín eins og þjóðin öll og stundum söng hún þau.

Fljótlega las ég fyrir hana ljóðið „Fáðu mér beinið mitt Gunna“ en þar sem mamma mín hét Gunnbjörg, þessi elska, og stöllur hennar kölluðu ávalt Gunnu á Kirkjulæk, þá glotti hún við ljóðinu um beinið. Í framhaldi las ég fyrir hana Konan sem kyndir ofninn minn og Bréfið hennar Stínu: „Ég skrifa þér með blýant, því blek er ekki til,“ og ég fann að mamma mín náði innri tóninum og við sátum stundum saman og ég las ljóðin hans Davíðs frá Fagraskógi fyrir hana.

Engu mátti muna að klökkvi sækti að okkur við lestur Á föstudaginn langa: „Ég kveiki á kertum mínum, við krossins helga tré.“ Já, svo merkilegt sem það er þá er stundum eins og skáldin tali fyrir lesandans hönd og orði svo laglega það sem í huga hans bjó. Í tilefni dagsins læt ég fljóta með eitt lítið ljóð eftir meistarann:

Útigönguhestur

Er ungir fola fitna inn við stall,
sem flestir verða aðeins markaðsvara,
má gamall jálkur líkt og freðið fjall
á fannabreiðum einn og gleymdur hjara.

Hann krafsar gadd, uns kelur hóf og legg,
og koldimm nóttin ógnar sínum gesti.
En stormakófið kæfir brostið hnegg
í klakabörðum útigönguhesti.

Hart er að verða að híma undir vegg
og hafa verið gæðingurinn besti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.