Batavegur tvö

Margir hafa lagt fyrir sig í gegnum aldirnar að útskýra Ljóðaljóðin. Í þeim hópi eru jafnt andleg stórmenni, minni og meiri spámenn og fræðimenn. Kannski hefur þeim flestum fundist sín skoðun vera hin eina rétta. Það er mannlegt. Og þótt margir fáist við að útskýra ritningarnar fyrir öðrum, þá blasir við að það er ekki á hvers manns færi að koma auga á kjarna þeirra.

Miklir innvígðir menn hafa látið í ljós þær skoðanir um texta Biblíunnar að þeir séu þétt ofnir og að undir yfirborði þeirra leynist dýptir og aðrar og háleitari hugsanir en þær sem augað og skilningurinn grípur við fyrstu rannsóknir. Að hinn raunverulegi leyndardómur textans sé hulinn þrefaldri blæju, blæju sem ekki verði séð inn fyrir nema af göfugustu sálunum sem náðu þeim andlega þroska auðmýktar og elsku til Guðs að honum, Drottni allsherjar, í elsku sinni til þeirra þóknaðist að ýta hulunni til hliðar.

Ljóðaljóðin fjalla um elsku og þrá. Margir sjá í þeim ástarsamband karls og konu og skilja þau út frá þeim viðhorfum að allt sé kynferði. Aðrir sjá aðra hluti. Í elstu skýringum Gyðinga er brúðguminn kynntur sem Yahweh, Guð og brúðurin sem Ísraelsþjóðin og bókin sjálf sem táknræn frásögn um reynslu þjóðarinnar í samfélaginu við Guð sinn allt frá Exodus til komu Messíasar. Þá var einnig til kenning um að Ljóðaljóðin væru táknræn lýsing á dulrænum samdrætti virkra vitsmuna og óvirkra.

Kristnir menn sáu Krist í brúðgumanum og kirkjuna í brúðinni, sem og hinn trúaða einstakling. Kaþólskir sáu gjarnan Maríu mey í brúðinni. Fyrir sumum skólamönnum á miðöldum var bókin full af dulrænum meiningum, aðrir sáu í henni sögu fortíðarinnar og spádóma um framtíðina. Samkvæmt Marteini Lúter táknaði brúðurin ríkið og var bókin lofsöngur Salómons konungs þar sem hann þakkaði Guði fyrir hollustu og tryggð þjóðarinnar. Loks eru þeir til sem sjá brúðina tákna Spekina. Viskuna.

Samkvæmt framantöldum molum, sem eru aðeins hluti úr dropa í risavöxnu hafi bókmennta um Ljóðaljóðin, virðist ekki skynsamlegt að alhæfa um kjarna þeirra og markmið höfundanna. Það er alþekkt vandamál allra tíma við að setja saman texta og birta hann að ævinlega má reikna með því að viðtakandinn fái út úr honum eitthvað annað en höfundurinn ætlaðist til.

Eitt andsvar við „Batavegur tvö“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.