Á bataveginum

Á bataveginum. Loksins. Tölvan mín. Þetta yndi mitt og elska. Vírusar herjuðu á hana í síðustu viku. Og bakteríur. Geðveikibakteríur. Í þúsundavís. Hún varð fársjúk, vesalingurinn. Og ég þessi auli sem ekkert kann nema að skrifa á hana. Hringdi því á verkstæði og bað um hjálp. „Ekki í dag og varla á morgun,“ var svarað. Og það stóðst. Helgin gekk í garð og tölvan um það bil meðvitundarlaus. Ég fékk mér magnyl. Tölvan neitaði að taka lyf.

Síðdegis á mánudag kom viðgerðarmaður. Hann lagði sig allan fram. Lauk ekki viðgerð. Kom aftur morguninn eftir. Hafði nauman tíma. Fjölgaði vírusvörnum. Fjarlægði pöddurnar. Svo til allar. Tvær eru enn til staðar. Hef á tilfinningunni að sýkingin taki sig upp þá og þegar. Reyni samt að sýna tölvunni ekki vorkunnsemi. Minnist þess að eitt sinn, vann þá hjá Ístaki, starfsmaður nokkur á skrifstofu var á leið upp tröppur á aðra hæð. Hann var lamaður fyrir neðan mitti. Ég bauð honum aðstoð. Gleymi ekki svipnum á honum þegar hann sagði: „Ég er vanur að bjarga mér.“

Hef því, þessa tölvulausu daga, reynt að lesa meira. Er á kafi í bókinni, Hið fagra er satt, eftir Kristján Árnason. Þar eru glæsilegar heimspekigreinar, m.a.um Kierkegaard, Nietzsche og Sartre. Er núna í Hegel. Til að létta á hausnum tók ég utan af bók Matthíasar Johannessen fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Matthías hefur verið einn af stóru ritstjórunum á síðustu öld. Mér virðist að í honum búi vinátta til þjóðarinnar. Allrar. Sem ekki verður endilega sagt um marga aðra stóra ritstjóra.

Þegar ég, við lesturinn, kom að skoðun hans á Ljóðaljóðunum brá mér heldur betur í brún. Varð að lesa kaflann tvisvar og sumt í honum þrisvar. Matthías talar eins og hann einn viti. Það finnst mér ekki að menn megi gera þegar um stórkostlegustu texta mannkynssögunnar er að ræða, að ég ekki tali um stórkostlegustu ljóðatextana. Í umfjöllun um þá finnst mér að menn eigi að: „draga skó sína af fótum sér,“ „beygja hjartans og holdsins kné,“ og setja skoðanir sínar fram fremur sem spurningar en alhæfingar.

Meira seinna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.