Karlar í krapinu

Karlmenn eru hinar miklu hetjur tilverunnar. Þetta undirstrikaðist vel í gær. Ásta átti erindi í Kringluna. Þurfti að skipta einhverri flík. Ók á eigin bíl. Póló. Bílinn hefur hún dáð og dásamað alla daga. Nema kannski þegar hún er að kaupa varahluti í Heklu. Þar er allt svo dýrt. Hvað um það. Bíllinn hennar hafði staðið svo til ónotaður allan júlímánuð. Vegna sumarleyfa. Og henni þótti gott að setjast inn í hann og aka og erinda frjáls og óháð. Við ætluðum síðan að hittast þegar ég hefði lokið mínum erindum.

Síminn minn hringdi. Ásta bar sig illa. „Bíllinn minn er bilaður á miðri akrein á bílastæði Kringlunnar. Fyrstu hæð. Neitar að fara í gang. Og allir bílstjórarnir flauta og flauta. Þótt ég sé með „viðvörunarljósin” á. Þeir keyra ekki framhjá þótt það sé nægt pláss.” Hamagangurinn leyndi sér ekki í símanum. Ég flýtti mér til hennar. Það var nóg pláss fyrir umferðina til að fara framhjá. Þeir gerðu það ekki fyrr en ég var kominn á staðinn. Þá virtist það ekki vera vandamál lengur. Karlar í krapinu. Og sumir á 38 tommum.

Þetta atvik minnti á ágæta litla frásögu sem gekk fyrir allmörgum árum. Umferðin á Miklubraut, sem oft er afar mikil og þung, beið eftir grænu ljósi við Háaleitisbraut. Fremst var lítill bíll og sat kona undir stýrinu. Bíllinn hennar hafði drepið á sér, (eins og sagt er á bílstjóra máli) og vildi ekki með nokkru móti fara í gang. Þá lögðust bílstjórarnir, sem voru fyrir aftan bíl konunnar, á flauturnar. Og flautuðu og hömuðust. Og flautuðu og hömuðust. Loks gafst konan upp og gekk að bílnum næstum fyrir aftan sig og sagði við bílstjórann: „Þú getur kannski komið þessu í lag fyrir mig. Ég skal halda flautunni á meðan.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.