Texti og túlkun

Sumarleyfi lokið. Skrifborðið og náttborðið hlaðin bókum um orð. Orð, tungumál og texta. Þá og um höfunda, hugsun og orðræður. Af ýmsum toga. Lestur þeirra oftast lyft huganum. Jafnvel hátt. Hvað er hátt? Stöku sinnum ringlað hann. Hvað eiga menn við með orðum sínum? Hverjum hafa þeir ætlað þau? Venjulegu fólki? Eða fagbræðrum sínum? Skyldi einn sjá það sama í texta og einhver annar? Töluðum eða rituðum? Lærðum ber saman um að vandinn er verulegur. Bæði höfundar og viðtakanda.

Tungumál er manninum lykill að mennsku. Lykill að félagslegu samneyti. Stundum kenndi ég þetta á fræðslukvöldum í Samhjálp. Hvatti fólk til að hugleiða tungumálið og mikilvægi þess. Það væri tengingartæki þess við aðra menn. Greindi mennina frá öðrum skepnum jarðar. Því þyrfti að rækta það. Umgangast það af alúð, virðingu og þakklæti.

Allt lífið er fólk að móta hugsun sína með orðum. Það lætur hugsun sína í ljós með orðum. Og allt lífið er fólk að taka við orðum, hugsun annarra. Þessi orðaskipti eru átakalítil í daglegu samneyti fólks. Fjölskyldum og vinnusvæðum, svo dæmi sé tekið. Vandinn eykst þegar ókunnugir eiga í hlut. Þegar ólíkir orðheimar mætast. Þá þarf viðtakandinn að leggja út af orðunum sem hann heyrir eða les.

Í Lesbók Morgunblaðsins 17. júlí ( þeir senda manni blaðið daglega út á land í fríinu) er Neðanmáls grein um stjórnaskrána sem fjallar um þennan vanda. Þar segir m.a.: „Texti verður til í ákveðnu samhengi. Túlkun verður einnig til í ákveðnu samhengi. Þetta flækir málið.” Minnist samkomu þar sem nýbakaður doktor í guðfræði var gestaprédikari. Hann hóf mál sitt með því að benda tilheyrendum á að ekki væri sjálfgefið að þeir áttuðu sig á málfari hans sem hefði mótast í mismunandi háskólum í mörg ár.

Kona nokkur um fimmtugt kom til leiðtoga í kristilegu starfi í upphafi samverustundar. Hún tók hendi sinni undir annan handlegg hans, hallaði höfðinu að öxl hans og sagði blíðlega: „Mig dreymdi þig í nótt.” Maðurinn stansaði við. Ótal hugmyndir um drauma fóru í gegnum huga hans. Hvað meinti konan? Hverskonar draumur var þetta? Hann spurði loks, eftir drykklanga stund: „Var það góður draumur?” Hún svaraði: „Mig dreymdi að ég kom til þín og bað þig um að biðja fyrir mér.”
Hún lést tveim mánuðum síðar. Úr krabbameini.

Sigfús Daðason skáld yrkir:

Orð
ég segi alltaf færri og færri orð
enda hafði ég lengi á þeim illan bifur.
Tign mannsins segja þeir
þó þeir geri sér ekki ljóst að orð eru dýr
né með hverju þeir geti borgað.

Og síðar:

Hvað sem öðru líður vil ég biðja menn
að fara varlega með orð
þau geta sprungið
…..

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.