Ýttu á tólf fyrir

Fyrst hringir í langan, langan tíma. Svo svarar vélrödd: Ýttu á einn ef þú vilt þetta, ýttu á tvo ef hitt, ýttu á þrjá fyrir einn möguleika enn og fjóra fyrir en annað. Bíddu annars…Því miður eru allir fulltrúar uppteknir. Símtölum verður svarað í röð. Svo liðu tíu mínútur og engin svaraði. Þá byrjaði brjóstsviðinn. Því miður eru allir þjónustufulltrúar uppteknir…. Því miður eru allir fulltrúar uppteknir.

Þá ákvað ég að hanga ekki lengur yfir þessari þjónustuómynd. Vildi ljúka af að kaupa inn. Ein verslunin opnar ekki fyrr en tíu. Önnur ekki fyrr en ellefu. Þriðja ekki fyrr en tólf. Mann getur nú langað til að blóta stundum. En ritningin er á móti því. Hún segir: „Blessið en bölvið ekki.” Man að tengdapabbi sagði stundum „andsvítans” eða „déskotans.” Held að hann hafi fengið hálfa útrás við það.

Á einum staðnum var lítil stúlka við afgreiðslu. Kannski ekki endilega smávaxin, en mjög ung, að sjá. „Nei, ég veit það bara ekki, því miður. Spurðu þarna til vinstri.” Ég fór til vinstri. „Nei, það hef ég aldrei heyrt. Helduru að það fáist hér?” Og nú var eina ráðið að leita sjálfur. Búið var að færa ýmsa rekka. Raða þeim á miðja gönguleiðina. Eins og þeir ættu að troða sér ofan í innkaupakörfuna hjá manni.

Nei. Það er ekki verið að bæta þjónustuna. Þrátt fyrir allar þessar auglýsingar sem segja: „Starfsfólkið okkar elskar þig.” „Þú ert okkar óskaviðskiptavinur.” „Betri þjónusta er kjörorð okkar.” Þessi slagorð eru lygi. Hrein og klár lygi. Og það sem fyrirtækin kalla framför í þjónustu við viðskiptavinina er einfaldlega afturför. Þau hafa engan áhuga á þjónustu, aðeins á peningum kúnnanna með sem allra minnstum kostnaði.

Hærri vextir. Minni þjónusta. Ýttu á einn fyrir…Ýttu á tvo fyrir….Ýttu á þrjá fyrir ..Ýttu á fjóra…því miður er enginn fulltrúi við í augnablikinu. Símtölum verður svarað í ….. Stórkostleg sjálfvirk símkerfi. Mikil framför. Færra starfsfólk. Minni þjónusta. Svo koma ársreikningarnir: Afkoma fyrirtækisins var miklu, miklu betri en árið áður. Ákveðið var að greiða hluthöfum hærri arð…

Ýttu á einn fyrir…ýttu á tvo fyrir…ýttu á þrjá fyrir…ýttu á fjóra fyrir… því miður eru allir… uppteknir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.