Góður laugardagur

Það er engin launung að á sumum dögum býðst listilegra efni til neyslu fyrir sál og anda á almennum markaði en á öðrum. Veiti maður því athygli og sé áhuginn sæmilega lifandi. Tvær slíkar veislur komumst við Ásta í síðastliðinn laugardag. Sú fyrri var í Seltjarnarneskirkju á Listahátíð þar, sú síðari í Langholtskirkju á vortónleikum Skagfirsku söngsveitarinnar.

Listahátíð í Seltjarnarneskirkju var helguð 23. Davíðssálmi, „í máli, myndum og tónum,” eins og segir í dagskrá. Sálmur 23 er að sjálfsögðu það trúarljóð, eða sá trúartexti sem þekktastur er og elskaður af stórum hluta mannkyns og hefur verið svo í gegnum söguna. Stendur hann við hlið „Faðir vorsins” hvað vinsældir snertir og allir kunna eða kannast við.

Þar sem við komum nokkuð of seint heyrðum við aðeins þrjá doktora fjalla um sálminn, Guðrúnu Kvaran, forstöðumann Orðabókar Háskólans, Gunnlaug A. Jónsson prófessor og Kristinn Ólason. Eftir fróðlegt erindi Guðrúnar sem bar saman nokkrar þýðingar sálmsins á íslensku kom fram hjá Gunnlaugi og Kristni m.a. að vegna markmiðs sálmsins væri dálítið út í hött að hann skuli vera fastur þáttur við útfarir, þar sem hann sé miklu fremur sálmur lífsins en dauðans.

Þessi niðurstaða þeirra gladdi litla verkamannshjartað í mér, en það hefur í mörg, mörg ár tileinkað sér þann skilning á sálminum að hann sé einmitt ljóð lífsins. Ljóð þess sem lifnar og lifir.

Vortónleikar Skagfirsku söngsveitarinnar voru seinna um daginn. Þeir voru glæsilegir og fallegir. Húsfyllir var í Langholtskirkju og greinileg skagfirðingastemning. Einsöngvarar stóðu sig afar vel og voru tónleikarnir hin besta skemmtun. Ef ég ætti að taka út úr hvað féll best að mínum smekk þá var það Missa Brevis, Jóseph Haydn, Vegferð og Börn, lög Björgvins Þ. Valdimarssonar og textar Bjarna Stefáns Konráðssonar. Í lokin söng kórinn Skagfirska þjóðsönginn, Skín við sólu Skagafjörður. Risu þá allir tónleikagestir úr sætum og drukku í sig stemninguna. Góður söngur. Góð skemmtun. Góður laugardagur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.