Segðu mömmu…

Fordómar í hausnum á mér hafa oft valdið því að nafn á sumum nýjum bókum hafa fælt mig frá þeim. Hluti af þeirri firru helgast af því að þessi árin ráða gamlir menn ekki við að kaupa nema sárafáar af þeim bókum sem þeir áður hefðu stokkið á á útgáfudegi. En segja nú eins og þekktur refur; „Þau eru súr.“

Las um helgina bók Guðmundar Andra um arkitekt á fimmtugsaldri sem bjó einn með pabba sínum og hundinum Pjatta. Undirtitill bókarinnar er; Saga um ástir. Líklega nær bókin að vera saga um ástir. Mér finnst hún fremur fjalla um einstæðingsskap, einmanakennd og þörf fyrir að tengjast.

Eftir lesturinn situr í mér hugmyndin um tengingar fólks. Fólk sem hittist á ýmsum skeiðum lífsins. Fólk sem nær að mynda tengingu, tengist, ekki bara einnar nætur gaman, heldur tengingu sem varir og verður dýrmæt. Það tengjast ekki allir. Kunna það ekki. Óttast það. Jafnvel þótt þeir þrái það.

En þegar tenging tekst, alvöru tenging sem verkar inn fyrir skelina og byrjar að mynda rætur, þá bregst aðili við skyndilegum óútskýrðum aðskilnaði með ótta og kvíða um að tengingin sé rofin. Bókin fjallar um hugsanaflæðið sem hamast í höfðinu á sögupersónunni allan tímann sem óvissan varir.

Er Kata farin fyrir fullt og fast eða kemur Kata aftur? Af hverju lét hún ekki vita? Kata, Kata, Kata. Af hverju tekur hún ekki símann? Utan svæðis? Hvar?

„Og svo gerist það skyndilega. Yfir mig hvolfist gamla magnleysið og ég gef frá mér lágt ýlfur þar sem ég stend með símann í hendinni, maginn í mér umhverfist, mér sortnar fyrir augum, ég síg niður á gólf með tólið í hendinni og dreg hægt undir mig fæturna og grúfi andlitið í lófanum og græt hljóðlaust.“ Bls. 84,

Það er svo dæmi um slóttugt eðli sölumennskunnar að aftan á bókinni stendur nokkuð stóru letri: „Frábærlega vel skrifuð bók.“ en þar er vísað til umsagnar Kolbrúnar Bergþórsdóttur um allt aðra bók, hver nefnd er með örsmáu letri: Um Náðarkraft:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.