Hrúturinn á Gilsbakka

Það var hrútur á Gilsbakka sem hét Malkus. Síðan eru liðlega fimmtíu ár. Muni ég rétt þá var þetta stór og mikill hvítur hrútur, kollóttur með aðeins eitt eyra. Það var hans sérkenni. Vafalaust hefur hann misst annað eyrað í vír eða annan háska. Menn sögðu að nafnið á hrútnum væri biblíulegt og greindu frá atburðum. Það þótti mér fyndið.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gærkvöldi þegar Pétur Gunnarsson, rithöfundur, las sjöunda passíusálm í útvarpið. Þar segir í fjórða versi: „Pétur með svellu sinni / sverð úr slíðrum dró, / hans trúi ég bræðin brynni, / og beint í flokkinn hjó. / Malkus hlaut hér af tjón. / Hann missti hið hægra eyra. / Höggið tók ekki meira. / Þessi var biskups þjón. /

Það var afskaplega skemmtilegt að upplifa samband heimafólksins á Gilsbakka við búpening sinn. Allar ærnar höfðu nafn og glöggskyggni bændanna þekkti stundum lömbin af mæðrum þeirra. Voru fjárbækur haldnar með nöfnum ánna og líktist það nánast göldrum þegar óvanur drengur úr Reykjavík hlustaði á mennina tala um sauðféð.

Annar hrútur á bænum hét því kunnuglega mannsnafni Eysteinn, samkvæmt hljómi orðsins. Við nánari skýringar kom í ljós að í rauninni hét hann Eisteinn, vegna þess að hann var eist-einn. Hafði aðeins eitt eista. Það nægði honum þó til að þjóna hlutverki sínu með sóma. Svo hefur maður heyrt af mönnum sem eins var ástatt um og létu hvergi aftra sér.

( Pétur með svellu sinni, = Pétur í æstu skapi,- sbr. að svella móður, hitna í hamsi, taka nærri sér, reiðast.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.