Laufið hélt í regndropana

Veðrið á laugardag var eins og af óskalista. Það var stafalogn og hiti 15°C. Svo á miðjum degi tók að rigna. Helli rigna. Regndroparnir streymdu lóðrétt niður, þétt saman. Það var eins og ský félli. Laufblöð ungu hríslnanna breiddu úr sér og teyguðu regnið og héldu í dropana. Fagnandi. Það hafði ekki rignt í margar vikur. Ósjálfrátt stóð ég upp, gekk út fyrir skyggnið, leit til lofts og lét rigna framan í mig.

Annars lásum við Ásta ýmist innan dyra eða úti á palli. Ásta las Karlar sem hata konur. Mitt viðfangsefni var Túrgenev. Stundum þegar maður les þýddar sögur eftir sama höfund undrar mann hvað málfarið á þeim getur verið ólíkt. Við nánari skoðun hallast maður að því að ástæðan liggi hjá þýðendunum. Það er vandaverk að þýða bækur. Góður þýðandi þarf helst að vera skáld. Inn við beinið.

Laufblöðin héldu regndropunum
Laufblöðin héldu regndropunum

Sagan um Múmú segir frá Gerasím, tveggja metra heljarmenni. Hann var einn af fjölmennu þjónusuliði efnaðrar ekkju af aðalsættum. Hann var mállaus og heyrnarlaus. Hann átti tíkina Múmú og þótti afar vænt um hana. Eitt sinn vildi hefðarfrúin gera sér dælt við Múmú. Múmú urraði og sýndi tennurnar. Hefðarfrúin brá hin versta við og fyrirskipaði að farið skyldi burt með tíkina.

Þegar málleysinginn skildi hvað um var að vera ákvað hann að strjúka. Hann tók tíkina með sér. Eftir langt ferðalag kom hann að veitingahúsi og bað um kálsúpu og kjöt. Hann reif brauðbita ofan í súpuna, skar kjötið í litla bita og setti diskinn á gólfið. Múmu tók snoturlega til matar síns eins og hún var vön. Gerasím fylgdist með henni. Tár unnu úr augum hans.

Skömmu síðar tók hann bát og réri út á ána. Hann batt snæri um múrsteina sem hann hafði fundið, gerði snöru í bandið og setti um háls Múmú. Hann lyfti henni upp og hélt henni út yfir borðstokkinn og horfði á hana í síðasta sinn…Hún horfði til baka óhrædd og full trausts og veifaði skottinu. Hann snéri sér frá, gretti sig og sleppti takinu….Gerasím heyrði ekkert, hvorki skyndilegt væl Múmú um leið og hún féll, né heldur þungan skellinn í vatnið.

Aðrar sögur í bókinni heita Dagbók óþarfs manns, Asja og Fyrsta ástin. Við lestur bókarinnar fær maður á tilfinninguna að það séu einmitt ,,óþarfar sálir” sem eigi samúð höfundarins. Sálir, fólk sem sífellt efast um sjálft sig og aðrir meta lítils og nýti sér óöryggi þess. Það er auðvitað bæði gömul saga og ný.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.