Kona með pípuhatt

Á leiðinni niður í miðbæ Reykjavíkur í gærmorgun beygði ég inn á Laugaveginn af Rauðarárstíg úr suðri. Umferðin mjakaðist á þeim hraða sem ævinlega er á þessum stað. Öll bílastæði voru upptekin vinstra megin götunnar og slangur af gangandi fólki á leið í ýmsar áttir. Sem ég kom á móts við Tryggingastofnun gekk kona í veg fyrir bílinn og gaf stöðvunarmerki með útréttum handlegg.

Hún var klædd eldrauðri stuttkápu, hafði svartan pípuhatt á höfðinu og stór sólgleraugu. Grönn og fremur ung. Hún gekk að bílnum farþegamegin, opnaði framhurðina og spurði: „Ertu að fara niðrí í bæ?“ Ég svaraði því játandi. „Gott,“ sagði hún og settist í framsætið við hliðina á mér. Nú flautuðu bílar fyrir aftan mig og ég varð að aka af stað.

„Mikið svakalega er ég heppinn að hitta á einhvern sem ég þekki og þurfa ekki að labba niður allan Laugaveginn.“ Nú ók ég yfir Snorrabrautina. Margir bílar reyndu að troða sér. „Sem þú þekkir?“ hváði ég. „Ég var að koma úr Tryggingarstofnun. Þeir lækkuðu á mér helvítin þessi. Ég lét þá heldur betur heyra það.“ Gáttaður á framvindunni reyndi ég að spyrja: „Sem þú þekkir?“

Á Laugaveginum var mikil fjöldi útlendinga. Væntanlega af risstóru skemmtiferðaskipi sem lá í Sundahöfn. „Ég á stefnumót við Bjarna,“ sagði konan með pípuhattinn. „Við ætlum að kaupa skó á hann,“ bætti hún við. Áhugasöm fylgdist hún af athygli með útlendingunum á gangstéttunum. „Naumast það er fjöldi maður. Og allir með innkaupapoka. Það er ekki blankt þetta. Hvað skyldi það helst kaupa?“

„Já, við ætlum að kaupa skó á hann.“ Í Bankastræti, á milli styttnanna og Núllsins, hrópaði hún: „Stoppaðu, stoppaðu, hann er þarna.“ Hún opnaði bílhurðina. Ég hemlaði. Hún steig út og hrópaði: „Bjarni, Bjarni.“ Svo snéri hún snéri sér við og sagði áður en hún skellti hurðinni: „Ég stal hattinum uppí Tryggingastofnun?“

Eitt andsvar við „Kona með pípuhatt“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.