Guðshús á drottinsdegi

„Mig langar í messu,“ sagði ég við Ástu. „Til er ég,“ svaraði hún að bragði. Fyrir valinu varð Hallgrímskirkja. Svo ókum við í veðurblíðunni eins og leið liggur úr Kópavogi. Ásta við stýrið. Umferðin var í lágmarki. Sem von er. Það er verslunarmannahelgi. Og stafalogn á Skólavörðuhæð.

Að vanda var fjöldi útlendinga umhverfis kirkjuna. Svo til allir með netta bakpoka og myndavélar. Stóðu þeir í hópum og dáðust að Leifi heppna. Tóku myndir af vinum sínum við fótstallinn og Skólavörðustíg í bakgrunni. Það var falleg sýn að horfa niður Frakkastíg, yfir sundin og upp í Esju.

Viðmótsþýður hátíðarandi tók á móti okkur þegar við gengum inn í kirkjuna. Guðshús. Guðshús á drottinsdegi. Og við völdum okkur sæti. Merkilegt hvað maður leitar í sömu sætin. Presturinn, séra Birgir Ásgeirsson gekk inn kirkjugólfið. Söfnuðurinn reis á fætur. Hörður Áskelsson lék á orgelið. Messuþjónar lásu ritningarlestra.

Frá Jesaja 26 þessi orð meðal annarra: „…Drottinn er eilíft bjarg. Hann hefur lítillækkað þá sem bjuggu á hæðum, steypt hinni háreistu borg, steypt henni til jarðar og varpað henni í duftið.“

Frá fyrsta Jóhannesarbréfi 4, þessi orð meðal annarra: „…Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði….“

Og í guðspjalli dagsins, MT.7 eru þessi kunnuglegu orð: „En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess varð mikið.“

Það var engin gagnrýni í orðum séra Birgis. Miklu fremur viðvörun. Gætið að hvernig þér byggið. Haldið yður við reglur og farið með gát. Hlýðið á viðvaranir Drottins. Hafið orð hans í heiðri. Munið eftir náunga yðar.

Sátt gengum við saman út í sumarblíðuna. Og þakklát.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.