Þrjú epli og capuccino

Við fórum í Kringluna eftir vinnu í gær. Þar var ekki að sjá að kreppa væri í landinu. Fjöldi fólks streymdi milli verslana glaðvært og hresst og keypti og keypti. Safnaði pinklum og pokum kampakátt eins og sigurvegarar. Við keyptum þrjú epli í Hagkaupum og splæstum í capuccino. Það eru tvö ár síðan síðast.

En síbyljan, hvar sem maður kemur og hvert sem maður fer, æpir um fjármálasvik bankamanna og ótrúlegar svikafléttur. Einnig trúðana á Alþingi sem haga sér eins og það eina sem skipti máli sé að ná athygli áhorfenda, ekki þjóðarhagurinn og þar er eiginlega ekki einn einasta mann að finna sem vekur traust. Síbyljan, daginn út og daginn inn.

Öll þessi orð, öll þessi orðafroða síbyljunnar, minnir óneitanlega á frægan gítarleik í stórbrunanum í Róm forðum daga. Gítarleik. Orðafroða og snakk. Engu og engum til gagns. Og þótt maður í einfeldni sinni leggi sig fram um að finna einhverja niðurstöðu sem hægt væri að byggja á, þá er hana einfaldlega ekki að finna.

Þessvegna verður yndislegt, núna þegar fyrirvinnan er komin í sumarfrí, að flytja upp í Borgarfjörð og setjast að í litlum kofa á bökkum Hvítár og fylgjast með sólinni lýsa upp tilveruna og stjúpur og fjólur breiða blöð sín á móti henni. Sjá Guð í hverjum daggardropa og
líta til „fugla himinsins og lilja vallarins“ sem vaxa og dafna svo prýðilega án útsölunnar í Kringlunni.

Læt fylgja eina gamla mynd af hriðingu heys á Hraunhúseyrum.

Myndin er frá 1953 tekin á Hraunhúseyrum á Gilsbakka. Á henni eru: Snorri Jóhannsson við traktorsbeislið, Magnús á Gilsbakka uppi á vagninum, Óli Ágústar og Kjartan Sigurjónsson, síðar orgelleikari, með heykvíslar.
Myndin er frá 1953 tekin á Hraunhúseyrum á Gilsbakka. Á henni eru: Snorri Jóhannsson við traktorsbeislið, Magnús á Gilsbakka uppi á vagninum, Óli Ágústar og Kjartan Sigurjónsson, síðar orgelleikari, með heykvíslar.

Eitt andsvar við „Þrjú epli og capuccino“

  1. Já Óli það er erfitt að átta sig á öllu þessu klúðri og fræðingar og spekúlantar segja allir sitt hvað svo maður veit ekki hverjum á að trúa. Skemtileg mynd af hirðingu. Þarna er fergusoninn tekinn við af þarfasta þjóninum. Kær kveðja í Litlatré.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.