Helgi, Hannes og Jóhanna Sig.

Það hefur verið lygnt, hlýtt og unaðslegt við höfnina í Reykjavík undanfarið. Fjöldi fólks lagt leið sína þangað á leið í hvalaskoðun. Mest útlendingar. Bekkurinn við Ægisgarð því sjaldan verið laus. Hannes kemur að. Hann er með klappstól undir hendinni. Helgi situr einn á bekknum.

Hannes: Ósköp ert þú glaðlegur í dag.
Helgi: Það er nú tilefni til.
Hannes: Nú. Hvaða tilefni er það?
Helgi: Loksins fær maður tilgang aftur.
Hannes: Tilgang?
Helgi: Já. Eftir öll þessi ár eftir starfslok.
Hannes: Hvaða tilgangur er það?
Helgi: Blasir það ekki við. Það er fyrsti júlí.
Hannes: Fyrsti júlí?
Helgi: Já.
Hannes: Hvað er með fyrsta júlí?
Helgi: Við höfum verið kölluð til að bjarga málunum.

Hannes horfir forviða á Helga. Hann nær ekki samhenginu. Bíður frekari útskýringa. Almikil umferð gangandi útlendinga er leið til og frá hvalaskoðunarskipunum.

Hannes: Ertu þá kominn í björgunarsveit?
Helgi: Það má orða það svo.
Hannes: Og hverju ertu að bjarga?
Helgi: Þjóðarbúinu auðvitað.
Hannes: Hvernig má það vera?
Helgi: Með peningum maður. Hvað annað?
Hannes: Peningum?
Helgi: Já. Hún lækkaði á mér um liðlega sex þúsund.
Hannes: Lækkaði hvað? Hver?
Helgi: Hetjan okkar. Jóhanna Sig.
Hannes: Ertu að tala um ellilaunin?
Helgi: Já. Ég er að því. Rúm sex þúsund á mánuði.
Hannes: Þolirðu það?
Helgi: Það er enginn vandi. Gott að mega hjálpa.
Hannes: Hvernig ferðu að því?
Helgi: Ég fasta tvo daga í viku í stað eins.

Nú varð löng þögn. Hannes horfði út yfir höfnina. Hann reyndi að átta sig á því sem Helgi hafði sagt. Loks opnaði hann klappstólinn, setti hann við hlið bekksins og settist. Svo leit hann á félaga sinn, hallaði sér að honum og hvíslaði:

Hannes: Af hverju ertu ber að ofan?

Eitt andsvar við „Helgi, Hannes og Jóhanna Sig.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.