Tryggvi Þór og Sigmundur Davíð

Það væri vafalítið gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eins og málum er háttað, að nýr maður yrði kosinn formaður flokksins. Maður sem minni líkur eru á að sé marineraður í anda flokkseigenda. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að hægt sé að treysta Tryggva Þór þótt ekki blasi við hvernig honum gengi að fást við gamla ráðríkið.

En það er ekki alltaf nóg að skipta um formann. Framsóknarflokkurinn er dæmi um það. Það vakti ákveðna von um nýja tíma þar þegar Sigmundur Davíð geystist fram á sviðið og „kom sá og sigraði.“ Áhorfendur hugsuðu sem svo að nú færu nýir tíma í hönd þar. Sú von hjaðnaði smámsaman og loks blasti við að gamla kerfið í flokknum sleppir aktaumunum ekki svo glatt.

Eins er þetta í Samfylkingunni. Þar eru einkennilegar ákvarðanir í gangi. Framganga Ingibjargar og framboð Jóns Baldvins eru varla til þess fallin að auka gengi flokksins. Þótt Jóhanna Sigurðar sé vinsæl, raunar svo vinsæl að sjálfstæðismenn telja mikla þörf á að draga úr þeim vinsældum eins og sést víða á netinu, þá mun það ekki nægja til viðhalda trausti á Samfylkingunni.

Stjórnmálin virðast hafa ákaflega sterka tilhneigingu til að falla í sama gamla farið. Það er eins og innbyggt lögmál hafni breytingum. Hverra hagsmunir ætli standi þar að baki?

Eitt andsvar við „Tryggvi Þór og Sigmundur Davíð“

  1. Mikið til í þessu. Þess vegna er stjórnlagaþing lífsnauðsyn fyrir íslenska þjóð. Vonandi kýs þjóðin um nýja stjórnarskrá ekki seinna en vorið 2011.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.