Að skipa í stöðu eða setja

Lög eru huglægt fag. Menn skilja þau og túlka frá ýmsum sjónarhornum. Þegar lögmenn glíma með lögum kemur þetta berlega í ljós. Það hlýtur að vera flókið að vera dómari og eiga að ákveða hvaða túlkun skuli taka mið af við dómsuppkvaðningu. Óljóst er hvort réttlæti nái oftar fram en ranglæti, enda má lengi spyrja: Hvað er réttlæti?

Nú karpa menn um ráðningu seðlabankastjóra. Lögmaður fullyrðir í sjónvarpi að það sé kristalstært að í lögunum segi að ekki mætti „skipa“ útlending í embætti á borð við seðlabankastjóra. Hann gat samt ekki bent á lagagrein þar sem stæði að ekki mætti „setja“ útlending í slíka stöðu, skírskotaði þess í stað til þess að það væri í anda laganna alveg kristalklárt.

En er það kristalsklárt? Þeir sem settu lögin hafa eflaust viljandi sleppt því að setja þar inn málsgrein sem skæri úr um að ekki mætti „setja“ útlending í slíka stöðu, til þess einmitt að mögulegt væri að leysa ráðningarvandamál, ef nauðsyn krefði, með því að „setja“ útlending til bráðabirgða.

Þegar hlustað er á lögmenn útskýra lög þá verður venjulegt fólk oft forviða. Einn fullyrðir í vestur og annar í austur um merkingu sömu málsgreinar laga, allt eftir því hvert þeir vilja að niðurstaðan leiði.

Því má reikna með að lögmenn sem ekki eru sérlegir óvinir ríkisstjórnarinnar myndu benda á að menn ættu ekki að reyna að útskýra lögin með orðum sem ekki væru í þeim. Slíkt stæðist ekki lög og enn síður fyrir dómi.

En vonandi tekst nú Seðlabankanum að minnka slagsíðuna á skútunni. Það er vissulega mál málanna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.