Það er svo gaman að ganga saman II

Við gengum niður stigann. Þá tóku við allskyns lampa og skerma og dósa og kodda og ramma og mynda og gardína og ég veit hvað, deildir. Það var mikill erill. Fjöldi fólks að ganga saman og hafa gaman og sumir með fullar kerrur, aðrir með stóra gula IKEA-poka á öxlinni fulla af dóti. Þarna voru hjón eða par með tvær kerrur, báðar svo hlaðnar að út af stóð.

Við leituðum að 14 B. Þar áttum við að fá svör við öllum okkar spurningum. Og viti menn, við fengum þau. Fyrst mældi ég lengdina og breiddina á pakkningunni. Hafði sótt málband sem hékk í búnti á nagla og skar mig á því. Ásta lagði til málanna, pakkinn væri ekki svo þungur að sjá, sagði hún. Ég lyfti endanum. Sagði: „Prófa þú.“ Hún bifaði kassanum ekki.

Þá hófust vangaveltur um það hvernig við kæmum kassanum inn í kofann og sáum, eftir nokkrar gáfaðar tillögur, að við mundum geta opnað hann í bílnum og borið hann inn í hlutum. „Eða keyrt hann á hjólbörunum,“ bætti Ásta við. Henni finnst gaman að keyra hjólbörur. En við vorum ekki að kaupa skápinn, einungis að tala um hann og koma við hann, spá í samsetninguna og sjá hann fyrir okkur í huganum.

Nú var bara síðasti áfanginn í versluninni eftir. Kassinn. Það eru sennilega tíu kassar í grennd við útganginn. Hlið við hlið. Við hvern þeirra var löng biðröð. Löng, löng biðröð. Þarna var parið með körfurnar tvær og hafði nú bætt á þær einhverju innpökkuðu húsgagni svo löngu að það náði yfir báðar kerrurnar og hafði tilhneigingu til renna út af þeim. Karlinn mátti hafa sig allan við til að afstýra því. Og konan hans ýtti. Þetta var fólk um þrítugt.

Með alkunnum skipulagshæfileikum mínum tókst mér að sigta út kassa þar sem fjórir með sárafá atriði, biðu í röð til að borga. Ég dreif mig í röðina. Lágvaxinn, þybbinn náungi var næstur fyrir framan mig. „Alltaf gaman að komast í biðröð,“ sagði ég, skringilega kátur í sálinni. Maðurinn snéri sér hægt að mér og sagði: „Gaman? Þú færð nóg af þessu næstu árin. Kreppan á eftir að sjá um það. Skortur og barátta um vörur.“

Þar sem ég hafði hugsað mér að tala alls ekki um kreppuna þennan dag, horfði ég lengi á manninn, þögull. Þetta var þrifalegur maður. Líkur Neyðarköllunum nema fötin. Þau voru í einskonar sauðalitum. Ég hallaði mér að honum og sagði: „Þegar ég var drengur þá stóðu íslenskar konur í biðröðum heilar nætur á Laugarveginum til að vera fyrstar í búð morguninn eftir.“

„Svo langt man ég ekki,“ sagði maðurinn, „var kreppa þá?“ „Það hafði spurst út að von væri á sendingu af nælonsokkum.“ Maðurinn stóð þarna og horfði á mig. Kannski trúði hann mér ekki. Það var löngu komið að honum. Strákurinn á kassanum kallaði: „Næsti.“ „Þú ert næstur,“ sagði ég.

Karlar í kreppu
Karlar í kreppu

Þegar hann hafði borgað hlutina sína og var kominn spölkorn frá kassanum snéri hann sér við og sagði: „Nælonsokka?“

Og þar með lauk þessu útstáelsi okkar Ástu á degi sem átti að verða kreppulaus. En það hafði samt verið gaman að ganga saman – og margt að spjalla, um skápakaup og önnur framtíðaráform.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.